Þýskir læknar gáfu það út í gær að svo virtist sem eitrað hefði verið fyrir Alexei Navalní, rússneska andófsmanninum sem dvelur nú á Charité-spítalanum í Berlín eftir að þýsk yfirvöld fengu leyfi til þess að flytja hann þangað frá spítala í Síberíu á laugardag. Þar hafði hann dvalið eftir að hafa veikst skyndilega af ókunnum orsökum í innanlandsflugi fyrir helgi.
Samkvæmt læknunum í Berlín er ástand Navalnís alvarlegt og er honum haldið sofandi. Ekki er talið að hann sé í lífshættu, en óljóst þykir nákvæmlega hvaða langtímaáhrif hin ætlaða eitrun gæti haft á hann.
Læknarnir í Berlín segjast þó hafa komist að því að um einhverskonar kólínkljúf hafi verið að ræða, sem hafi hamlandi áhrif á virkni taugakerfisins. Lyf sem innihalda slík efni eru meðal annars notuð í meðferð við öldrunarsjúkdómum, en en slík efni má einnig að finna í taugaeitri.
Þau eru til dæmis í Novichok-taugaeitrinu sem bresk yfirvöld fundu í líkömum Skripal-feðginanna sem urðu fyrir eitrun í Salisbury árið 2018.
Rússnesk heilbrigðisyfirvöld sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem niðurstöðum þýsku læknanna var andmælt og að einkenni Navalní hefðu ekki komið heim og saman við einkenni eiturefnaeitrunar.
Í opinberri yfirlýsingu spítalans í Síberíu, þar sem Navalní dvaldi fram á laugardag, sagði að læknarnir þar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að veikindi hans stöfuðu af því að blóðsykur hans hefði fallið skyndilega.
Þó var honum gefið atrópín, mótefni við taugaeitri, þegar hann kom fyrst inn á spítalann, hið sama og honum er nú gefið í Berlín, samkvæmt umfjöllun New York Times.
Andlit andófsins
Alexei Navalní, sem er hefur í rúman áratug verið andlit andófsins gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta þar innanlands. Hann er menntaður lögfræðingur og hefur verið ötull gagnrýnandi spillingar í efstu lögum rússneska stjórnkerfisins frá því að hann byrjaði að blogga um vafasama starfshætti ríkistengdra stórfyrirtækja í landinu árið 2008.
Hann hefur sagt að flokkur forsetans, Sameinað Rússland, sé „flokkur þrjóta og þjófa“ og hefur nokkrum sinnum verið handtekinn fyrir þátttöku í mótmælum gegn ríkisstjórn Pútíns.
Hann bauð sig fram til borgarstjóra í Moskvu árið 2013 og fékk þá 27 prósent atkvæða gegn frambjóðanda úr flokki Pútíns, sem þótti dágott þegar horft var til þess að framboð hans fékk enga umfjöllun í rússneskum ríkisfjölmiðlum.
Navalní reyndi síðan að bjóða sig fram til forseta gegn Pútín árið 2018, en fékk ekki, þar sem hann hefur verið dæmdur tvívegis fyrir fjárdrátt. Þeir dómar hafa verið sagðir fyrir upplognar sakir og Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að réttur Navalnís til sanngjarnra réttarhalda hafi ekki verið virtur.
Ásökunum vísað á bug
Þýsk stjórnvöld fengu leyfi til þess að flytja Navalní til Berlínar á laugardag, en það reyndist torsótt að fá hann fluttan og hafa kenningar verið uppi um að rússnesk yfirvöld hafi viljað láta tíma líða til að reyna að tryggja að leifar af eiturefni myndu ekki finnast í líkama hans.
Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur kallað eftir því að Rússar láti fara fram rannsókn á því af hverju Navalní veiktist og bresk yfirvöld hafa kallað eftir því sama og að sú rannsókn verði algjörlega gagnsæ.
Dímítrí Peskov, talsmaður rússneskra yfirvalda, vísar því alfarið á bug að Pútín hafi haft nokkuð að gera með meinta eitrun gegn Navalní. Hann sagði í dag, samkvæmt BBC, að allt slíkt væri ósatt og að ásökunum um slíkt væri ekki hægt að taka alvarlega.
Hann setti enn fremur spurningamerki við það hvort þýsku læknarnir hafi metið ástand Navalnís með réttum hætti og telur þá vera of fljóta að gefa út að allt bendi til eitrunar, þar sem ekki sé búið að greina nákvæmlega hvaða efni það sé sem hafi fundist í líkama Navalnís.