Við áframhaldandi leit í gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS) að upplýsingum sem varða útflutning á karfa á árunum 2010 og 2011 hefur komið í leitirnar vinnuskjal með greiningu á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009.
Vinnuskjalið sem ber yfirskriftina: „Greining á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009“ var tekið saman af þáverandi starfsmanni VSS og sent úrskurðarnefnd í apríl 2010. Viðkomandi starfsmaður lét af störfum hjá Verðlagsstofu vorið 2010.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem send var út í dag.
Um er að ræða þriggja blaðsíðna ódagsett og óundirritað skjal með töflum og tölulegum upplýsingum um útflutning á óunnum karfa til Þýskalands árin 2008 og 2009, um meðalverð og magn í beinni sölu og á markaði innanlands þessi ár ásamt yfirliti um útgefin meðalviðmiðunarverð á karfa hjá VSS eftir mánuðum árin 2008 og 2009. Í lok skjalsins dregur þáverandi starfsmaður VSS ályktun af þessum gögnum í nokkrum línum, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.
Vistað utan hefðbundins skjalakerfis og fannst ekki
Verðlagsstofa skiptaverðs sagði í fyrri yfirlýsingu, sem stofnunin sendi frá sér þann 12. ágúst síðastliðinn, að VSS hefði tekið saman upplýsingar um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sent úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í upphafi árs 2012 vegna athugunar á máli sem þá var til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd.
Þetta virtist vera skjalið, sem Helgi Seljan fréttamaður á Ríkisútvarpinu kallaði „skýrslu“ í umfjöllun Kastljóss í mars árið 2012, en Samherji kallaði „skýrsluna sem aldrei var gerð“ í myndbandsumfjöllun sinni um málið sem birtist þann 11. ágúst, eða daginn fyrir fyrri yfirlýsingu Verðlagsstofu.
„Ástæða þess að ekki var getið um tilvist þessa skjals í fyrri yfirlýsingu VSS frá 12. ágúst er að það fannst ekki fyrr en nýlega þar sem það var vistað utan hefðbundins skjalakerfis VSS á aflögðu gagnadrifi sem núverandi starfsmenn hafa fæstir aðgang að,“ segir í yfirlýsingu stofnunarinnar í dag.
Samherji birtir skjalið
Samherji hefur birt skjalið á vefsíðu sinni í dag. Þar segir fyrirtækið enn fremur að ekkert í skjalinu styðji „þær ásakanir sem settar voru fram á hendur Samherja í Kastljósi“ nema síður sé.
„Ekkert í hinu nýfundna vinnuskjali Verðlagsstofu staðfestir þær ásakanir sem voru fluttar í þætti Kastljóss. Þvert á móti kemur fram í skjalinu að aðeins lítill hluti umrædds útflutnings á karfa var veiddur af skipum Samherja. Þá er ekkert fjallað um stærð eða gæði karfans í vinnuskjalinu,“ segir í yfirlýsingu Samherja.