Síminn er með það skoðunar að fjármagna dótturfélag sitt Mílu sérstaklega, í stað þess að fjármagna samstæðu fyrirtækisins sem eina einingu. Þetta kemur fram í tilkynningu með árshlutauppgjöri Símans, sem birt var í gær.
Í tilkynningunni er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, að rekstur Mílu sé „stöðugur og traustur sem endranær“ og að Míla muni taka við fleiri verkefnum frá Símanum á næstu mánuðum svo sem rekstri farsímadreifikerfis og IP-nets og verða þannig stærra hlutfall samstæðunnar.
Míla á og rekur grunnkerfi fjarskipta á Íslandi, þ.e. koparkerfi , ljósleiðara- og örbylgjukerfi sem nær til heimila, fyrirtækja og stofnana um land allt. Samkvæmt fjárfestakynningu Símans er áætlað að á bilinu 90-92 þúsund heimili á landinu verði ljóðsleiðaratengd í árslok.
Tekjur vaxa en stór sekt litar afkomuna
Tekjur Símans jukust um 3,2 prósent á fyrri hluta árs 2020 miðað við sama tímabil í fyrra, vegna mikils tekjuvaxtar í sjónvarpsþjónustu og upplýsingatækni. Tekjur Símans af bæði farsíma- og talsímaþjónustu drógust þó saman á milli ára.
Reikitekjur frá erlendum ferðamönnum minnkað þar sem fáir ferðamenn hafa komið. Þær lækka um 130 milljónir króna á milli ára og skýra samdráttinn í farsímatekjum, sem annars eru í hægum vexti.
Afkoma fyrirtækisins var þó mun lakari en á fyrri hluta síðasta árs og litast mjög af 500 milljón króna stjórnvaldssekt frá Samkeppniseftirlitinu, sem reiknast inn í uppgjörið.
Eins og áður hefur komið fram telur Síminn að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, vegna meintra brota á sáttum félagsins við eftirlitið hvað varðar útsendingar á enska boltanum, sé röng. Búist er við að áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurði í málinu innan skamms.
Fram kemur í fjárfestakynningu Símans að áhrif COVID-19 á reksturinn hafi verið minni en búist var við. Síminn hefur ekki nýtt sér nein úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins og starfsemin er sögð hafa gengið hnökralaust fyrir sig á meðan að starfsmenn unnu heima.
Auglýsingatekjur fyrirtækisins hækkuðu á milli ára á síðasta ársfjórðungi og eru sagðar í takt við áætlun félagsins, sem greip til hagræðingaraðgerða snemma í faraldrinum til að vega á móti tekjumissi. Síminn býst við því að aukið atvinnuleysi í haust muni hafa áhrif á spurn eftir vörum fyrirtækisins.
Hluthafar fengu 500 milljóna arðgreiðslur í apríl
Síminn greiddi hluthöfum sínum út 500 milljón króna arð í aprílmánuði, en arðgreiðslan var samþykkt á hluthafafundi Símans í mars.
Hagnaður Símans á síðasta ári nam 3.070 milljónum króna og hefur félagið þá stefnu að greiða að lágmarki 50 prósent af hagnaði eftir skatt í arð eða endurkaup hlutabréfa. Endurkaup hlutabréfa hófust í maí og hafa þegar verið keypt bréf fyrir 900 milljónir króna.