Skattrannsóknarstjóri hefur fengið upplýsingar sendar frá AirBnB á Írlandi um greiðslur sem runnu til íslenskra skattþegna vegna útleigu íbúða á Íslandi á árunum 2015-2018. Alls nema greiðslurnar 25,1 milljarði króna.
Óskað var eftir gögnunum frá AirBnB árið 2018, en þau bárust ekki fyrr en nýlega, samkvæmt tilkynningu á vef skattrannsóknarstjóra í dag. Írsk skattyfirvöld aðstoðuðu skattrannsóknarstjóra við að fá gögn og upplýsingar frá AirBnB.
Í tilkynningu skattrannsóknarstjóra segir að þegar sé farin af stað vinna innan embættisins við frekari greiningu gagnanna og að í framhaldinu verði metið hvort þörf sé á frekari aðgerðum af hálfu embættisins.
Stór hluti gistingar á Íslandi seldur í gegnum AirBnB
Markaðshlutdeild AirBnB, hlutfall af seldum gistinóttum á Íslandi, fór vaxandi með auknum umsvifum í ferðaþjónustu á Íslandi og náði hámarki árið 2018, þegar 38 prósent af öllum seldum gistinóttum á Íslandi voru seldar í gegnum AirBnB, samkvæmt ferðaþjónustugreiningu Landsbankans sem birtist í fyrra.
Fjölmargir Íslendingar hafa á undanförnum árum séð tækifæri í því að leigja út íbúðir sínar til skemmri tíma til ferðamanna, auk þess sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa nýtt sér vefsíðuna til þess að auglýsa hefðbundnara form íbúðagistingar.
Allt að 70 prósent íbúða í ákveðnum götum í Reykjavík voru skráðar á síðuna samkvæmt rannsókn á áhrifum AirBnB á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu sem birtist í maí í fyrra.
AirBnB er hluti af hinu svokallaða deilihagkerfi og var það form heimagistingar sem hægt er að bjóða upp á í gegnum síðuna nýr veruleiki fyrir bæði neytendur og stjórnvöld þegar markaðshlutdeildin fór vaxandi.
Hóteleigendur fundu sumir fyrir minnkandi eftirspurn vegna aukningar á heimagistingu í gegnum AirBnB og kvörtuðu yfir því að sitja ekki við sama borð þegar kæmi að skattlagningu og eftirliti með starfseminni.
Samkvæmt áðurnefndri rannsókn á áhrifum AirBnB á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu voru 2.567 eignir í Reykjavík skráðar á AirBnB í apríl í fyrra og þar af voru 58 prósent starfræktar án lögbundins leyfis.
Sérstök heimagistingarvakt var sett á fót hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Heimagistingarvaktinni var ætlað að hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til þess að skrá skammtímaútleigu sína, en mörgþúsund ábendingar hafa borist þangað um heimagistingu sem starfrækt hafi verið án leyfis.
Svokölluð 90 daga regla varðandi heimagistingu tók gildi í ársbyrjun 2017, en í henni felst að einstaklingum er heimilt að leigja út lögheimili sín og eina aðra fasteign sem er í þeirra eigu til allt að 90 daga á hverju almanaksári án þess að lúta sömu reglum um leyfi og gjöld og gilda um atvinnurekstur.