VÍS mun aldrei setja vöru á markað sem ekki samræmist persónuverndarlöggjöf. Þetta segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, í samtali við Kjarnann um nýjan Ökuvísi sem til stendur að setja á markað. Fjallað var um Ökuvísi í frétt Vísis fyrir viku. Nýjungin var síðan kynnt með auglýsingakápu sem kom með Fréttablaðinu á þriðjudag þar sem óskað var eftir fólki til að prófa þessa nýjung. Í kjölfarið spruttu upp umræður um það hvort fyrirtækið sé ekki að ganga of langt í rafrænu eftirliti með viðskiptavinum sínum enda muni hegðun þeirra í umferðinni hafa áhrif á verðið sem þeir svo á endanum greiða fyrir tryggingar.
Ökuvísir lýsir sér þannig að lítill kubbur er settur í bílinn sem sendir upplýsingar til síma ökumannsins um aksturslag hans. Í gegnum smáforrit getur ökumaðurinn skoðað nokkra þætti síns aksturslags, svo sem hraði í akstri, hröðun, hemlun og símanotkun. Út úr þeim þáttum sem metnir eru fæst svo aksturseinkunn sem VÍS notar til þess að áætla tryggingaiðgjald ökumannsins.
Telja vöruna auka öryggi á vegum úti
Helgi segist vera sannfærður um það að Ökuvísir eigi eftir að auka öryggi í umferðinni. „Ég held að þetta hjálpi okkur öllum að verða betri ökumenn, bæði góðum að verða betri og líka þeim sem eru ekki góðir að verða góðir. Þannig sjáum við þetta fyrir okkur og okkar sýn og okkar trú er að þetta muni fækka slysum í umferðinni sem er gríðarlega stórt samfélagsmál,“ segir Helgi.
Helgi telur tæknina koma þar að góðum notum. Með tækninni geti ökumenn séð hvar þeir geti bætt sig í akstrinum og nefnir í því samhengi þá þætti sem hér hafa verið taldir upp. „Ef við nýtum tæknina til þess að hjálpa okkur til að sjá jafnvel hvað það er, er það hraði, er það hröðun er það hemlun, erum við að nota símann? Það þarf ekkert mikið til þess að við verðum betri ökumenn,“ segir hann.
Verð trygginga geti sveiflast milli mánaða
Líkt og áður segir var þessi nýja vara frá VÍS kynnt í fyrsta sinn í frétt Vísis þar sem Helgi var til viðtals. Þar var sagt frá því að þeir ökumenn sem aki varlega geti vænst þess að verð trygginga þeirra lækki umtalsvert. En getur verð trygginga þá ekki allt eins hækkað ef ekið er óvarlega?
„Ef þú ert að keyra vel og kannski lítið einn mánuðinn og keyrir í næsta mánuði meira eða af einhverjum ástæðum ert að keyra verr, þá getur iðgjaldið hækkað alveg eins og það getur lækkað. Það er samt hitt sem að mér finnst mest spennandi við þetta, það er að vinna með þeim sem að geta bætt aksturslagið sitt á mjög fókuseraðan máta,“ svarar Helgi. Hann segir að í dag sé hámarksverð á tryggingum og það verði þannig einnig fyrir fólk sem notar Ökuvísi.
Vill minnka vægi tjóna í verðlagningu
Spurður að því hvernig aksturseinkunnin eigi eftir að vega inn í verð tryggingar segir Helgi að það sé enn í skoðun. Verkefnið sé á byrjunarstigi og að endanleg útfærsla liggi ekki fyrir. Helgi segir verðlagningu trygginga hingað til hafa miðast of mikið við tjónasögu og þessu vill hann breyta. „Ef þú lendir í tjóni þá hækka oft iðgjöldin þín og það er það sem okkur langar til að horfa meira frá og horfa til þess hversu vel þú ert að keyra. Ef þú keyrir vel þá geturðu alveg lent í tjóni. En við viljum verðlauna fyrir gott aksturslag. Við viljum horfa til þess að það sé aksturslagið frekar en tjónasagan sem hefur áhrif á verð trygginganna og það er það sem við erum að horfa til með þessari nálgun,“ segir Helgi.
Spurður að því hvað slæmir ökumenn megi þá búast við, fái þeir sér ökuvísi segir Helgi: „Mín algjöra trú er sú að það sem þeir mega búast við er að þeir verði, í samstarfi við okkur, betri ökumenn.“
Persónuvernd upplýst um verkefnið
Að sögn Helga þarf mikil vinna í verkefninu að eiga sér stað áður en Ökuvísir er tilbúinn fyrir markað sem gert er ráð fyrir að verði um áramót. Einn af þeim þáttum sem þarf að huga vel að er að allt sé í samræmi við persónuverndarlög en Helgi segir að Persónuvernd sé upplýst um verkefnið. Eitt af því sem þarf að eiga sér stað fyrir almenna útgáfu Ökuvísis sé einmitt samtal og samráð við Persónuvernd.
Helgi bendir á að það sé á ábyrgð fyrirtækja að starfa í samræmi við persónuverndarlög og að það sé ekki persónuverndar að samþykkja tiltekna vöru. „Það er mikilvægt að hafa í huga að við myndum aldrei setja vöru í loftið sem ekki er í samræmi við persónuverndarlöggjöfina. Við leggjum mikla áherslu á að eiga náið og þétt samtal við Persónuvernd um Ökuvísinn,“ segir hann.
Samþykki er aðalatriðið að mati sérfræðings
Kjarninn tók Hörð Helga Helgason einnig tali en hann er lögmaður hjá Landslögum og sérfræðingur í persónuvernd. Hvað finnst honum um þessa tækni út frá sjónarhorni persónuverndar?
„Eins og þessu er lýst þá stendur til að þetta verði gert á grundvelli upplýsts samþykkis hinna skráðu og það er svo sem grundvöllur sem hægt er að byggja á þegar farið er í vinnslu persónuupplýsinga. Þá er hægt að byggja á því að hinn skráði hefur gefið samþykki sitt fyrir vinnslunni. Það mikilvægasta í þessu er að hann sé vel meðvitaður um hvaða afleiðingar þetta getur haft og hvað það hafi í för með sér að veita slíkt samþykki,“ segir Hörður um málið.
Hörður segir gæta þurfi vel að skilyrðum persónuverndarlaga þegar unnið er með persónuupplýsingar og gögn sem safnað er saman um einstaklinga. „Það verður að gæta að ákveðnum skilyrðum þegar unnið er með þau. Þannig að ef að þau skilyrði eru uppfyllt og samþykkið sem slíkt er upplýst, frjálst og óþvingað þá sé ég ekki í hendi mér neitt sem ætti að koma í veg fyrir þetta,“ segir hann.
Tíðkast víða erlendis
Hörður segir að sambærileg þjónusta hafi tíðkast um nokkurt skeið erlendis. „Meðal annars innan hins evrópska efnahagssvæðis sem býr við sömu persónuverndarlöggjöf eins og við. Áhyggjurnar hafa aðallega lotið að þessu að fólk átti sig alveg örugglega á öllu því sem að fylgir, að það sé uppi á borðum hvernig farið verði með þessar upplýsingar og að því gengnu þá er í sjálfu sér í sjálfsvald hvers og eins sett hvað hann samþykkir mikið af einhverri svona hnýsni,“ segir Hörður.
Herði finnst umræðan um persónuverndarmál eiga það til að keyra um þverbak. „Það er merkilegt með þessi persónuverndarmál að þau ýmist springa út í mjög heitri umræðu mjög hratt og fólk verður ofboðslega hneykslað. Eða þá að því finnst eitthvað vera alveg sjálfsagt. Það þarf alltaf meira og meira til þess að fólk fari í þann gír, maður er orðinn svo dofinn fyrir þessu. Megnið af þessu er eitthvað sem við erum bara farin að samþykkja og gefum þannig eftir af okkar einkalífi fyrir þægindin,“ segir Hörður að lokum.