Það var á fimmtudag fyrir sléttum tveimur vikum sem fréttir bárust frá Síberíu þess efnis að andófsmaðurinn Alexei Navalní hefði skyndilega veikst um borð í innanlandsflugi, eftir að hafa fengið sér tebolla á flugvellinum í Tomsk. Nú hefur komið í ljós að Navalní var byrlað taugaeitri af gerðinni novichok, en Angela Merkel Þýskalandskanslari var brúnaþung er hún bar þau tíðindi fram síðdegis í gær.
Niðurstöður þýskra, sem hafa annast Navalní frá því að leyfi fékkst til þess að fljúga honum til Berlínar frá Síberíu þar síðustu helgi, eru sagðar afdráttarlausar. Og þegar niðurstaðan er sú að eitur af novichok-gerð hafi verið notað beinast böndin beint að æðstu stöðum í rússneska stjórnkerfinu, að Vladimír Pútín forseta sjálfum og leyniþjónustustofnunum rússneska ríkisins. Merkel segir Rússa þurfa að svara erfiðum spurningum.
Taugaeitrið var þróað á rannsóknarstofum Sovétríkjanna sálugu og eru skammtar af þessu baneitraða efni einungis taldir á forræði rússneskra yfirvalda. Novichok fæst ekki keypt út í búð og var sérstaklega bætt við sem bannefni í sáttmála Efnavopnastofnunarinnar OPCW í fyrra. Vestrænar leyniþjónustur telja að Rússar hafi verið að framleiða smáa skammta af eitrinu undanfarin ár og að Pútín fylgist grannt með.
Síðast var novichok, sem kalla má nýliða á íslenskri tungu, í heimsfréttunum árið 2018. Þá eitruðu tveir rússneskir leyniþjónustumenn fyrir gagnnjósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu í breska bænum Salisbury. Eitrinu var smurt á hurð heimilis þeirra. Þau jöfnuðu sig, en kona að nafni Dawn Sturgess var ekki jafn heppin. Hún lést eftir að hafa komist í snertingu við eitrið fjórum mánuðum síðar og talið er að hún hafi óvart komist í tæri við þann skammt sem rússnesku mennirnir skildu eftir sig.
Vildi Moskva að allir vissu?
Eitt af því sem vekur upp spurningar í máli Navalnís er, eins og blaðamaður breska blaðsins Guardian veltir upp í umfjöllun sinni, af hverju Navalní var leyft að fara með sjúkraflugi til Berlínar eftir að veikindi hans gerðu vart við sig. Rússnesk yfirvöld hljóta þá þegar að hafa vitað að þýskir sérfræðingar myndu verða leifa taugaeitursins varir í líkama Navalnís eftir ítarlega rannsóknir. Þá kemur upp spurningin, vildu rússnesk yfirvöld ef til vill að böndin myndu berast að þeim eins og þau gera nú?
„Mjög alvarlegar spurningar hafa nú vaknað, sem einungis rússneska ríkisstjórnin getur og verður að svara. Örlög Alexei Navalní hafa vakið heimsathygli. Heimurinn mun bíða svara,“ sagði Merkel í gær. Hún fordæmdi árásina á andófsmanninn, en gekk ekki svo langt að lýsa ábyrgð á hendur rússneskum stjórnvöldum.
Það gæti staðið á svörum úr þeirri áttinni. Dmitrí Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, lýsti því yfir síðdegis í gær að Rússum hefði ekki borist nein ný sönnunargögn um ástæðurnar fyrir veikindum Navalnís, sem liggur enn þungt haldinn á spítala í Berlín.