„Enn erum við að sjá nokkur [innanlands] smit á hverjum degi en virkum smitum í heild fer heldur fækkandi,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir á upplýsingafundi landlæknis og almannavarna í dag. Enn eru flestir sem greinast í sóttkví eða um 60 prósent að meðaltali. Sama afbrigði veirunnar er enn að smitast manna á milli hér á landi og staðan er áfram sú að ekki tekst alltaf að finna augljós tengsl milli smitaðra. Frá 15. júní hafa tæplega 220 greinst innanlands og í dag eru rúmlega 600 manns í sóttkví.
Fjöldi þeirra sem er að greinast á landamærum hefur hins vegar heldur aukist undanfarið þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fækkað á sama tíma. Milli 15. júní og 19. ágúst var hlutfall farþega með virk smit 0,04 prósent. Síðan þá hefur það hækkað upp í 0,3 prósent. „Það hefur tífaldast,“ sagði Þórólfur um virku smitin. Spurður hvort að hann hefði áhyggjur af þessari þróun sagði hann að ef lítið væri gert hefði hann vissulega áhyggjur. „Ef þessi þróun heldur áfram og við slökum á skimunum þá munum við fá fleiri smit hérna inn.“
Ekki sé skynsamlegt að slaka á takmörkunum innanlands og við landamærin samtímis. „Þetta er bara eins og að fara yfir stórfljót. Við verðum að feta okkur áfram.“
Þórólfur sagði að mögulega væri fjölgun smitaðra á landamærunum að endurspegla útbreiðslu faraldursins erlendis eða að hingað væri að koma fólk frá öðrum svæðum en fyrr í sumar.´
Um 100 hafa samtals greinst með virk smit við landamærin frá því að skimun við þau hófst um miðjan júní. Þar af hafa 84 greinst í fyrri sýnatöku og sextán í þeirri seinni, þ.a. fólk sem var neikvætt í þeirri fyrri. Þórólfur sagði þetta hærra hlutfall en hann hafði fyrirfram búist við. Um 60 prósent þeirra sem greinst hafa á landamærum eru með lögheimili á Íslandi. Af þeim sextán sem greinst hafa jákvæðir í seinni sýnatöku er um þriðjungur með íslenskt ríkisfang og búsettur hér, þriðjungur erlendir einstaklingar með tengsl hér og sama hlutfall svo af hefðbundnum erlendum ferðamönnum.
Þórólfur greindi frá tillögum sínum um tilslakanir á takmörkunum innanlands á fundi dagsins, m.a. að tveggja metra reglan yrði að eins metra reglu og að fjöldatakmörkunum yrði breytt úr 100 manns í 200. Von er á auglýsingu heilbrigðisráðherra um breyttar reglur fljótlega, jafnvel í dag.
Hann sagði einnig frá því að í undirbúningi væri endurskoðun á skimunum á landamærum. Frá 19. Ágúst hefur sú regla verið í gildi að allir sem koma til landsins þurfa að fara í tvær sýnatökur með 4-6 daga millibili og vera í sóttkví þeirra á milli. „Ég tel að menn þurfi að skoða áframhaldandi fyrirkomulag á landamærum í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum fengið,“ sagði Þórólfur en hann mun senda heilbrigðisráðherra tillögur sínar í næstu viku.
Veiran ekki vægari en áður
Á fundinum benti Þórólfur á að ekkert hefði komið fram, hvorki hér né erlendis, sem styddi þá kenningu að veiran væri vægari núna en í vetur. Skýringuna á minni veikindum nú megi líklega finna í samsetningu sjúklingahópsins – yngra fólk er nú að smitast en í fyrstu bylgjunni. Spurður um þá gagnrýni, sem m.a. hefur komið fram í leiðurum Fréttablaðsins um að aðgerðir við landamærin væru of harðar svaraði Þórólfur: „Ég bendi á það að við erum með lítið smit út af þessum aðgerðum sem við höfum verið að grípa til. Það er ástæðan. Við erum að sjá aukna útbreiðslu í mörgum löndum og á mörgum svæðum er verið að grípa til harðari aðgerðir en áður.“ Hann sagðist stundum líkja þessari umræðu við bólusetningarsjúkdóma: „Við erum ekki að sjá neina bólusetningarsjúkdóma og hvers vegna erum við þá að bólusetja?“
Þórólfur vill að hægt verði farið í afléttingu takmarkana og segir ekki skynsamlegt að draga úr takmörkunum á landamærum og innanlands samtímis. „Hvar liggur hættan? Í mínum huga er hún sú að við fáum mikið af veiru inn erlendis frá. Menn þurfa að finna jafnvægi á milli þessa að gera of mikið og of lítið. Þartilbær stjórnvöld verða að leggja mat á það.“