Heimildarmynd framleiðslufyrirtækisins Skotta Film um móttöku hóps sýrlenska flóttamanna er á lokastigi og verður afhent Ríkisútvarpinu á næstunni og vonandi tekin til sýninga í vetur. Þetta segir Árni Gunnarsson, framleiðandi myndarinnar, í samtali við Kjarnann.
Beinir styrkir til gerðar myndarinnar fengust frá utanríkisráðuneytinu og frá ríkisstjórninni, að tillögu forsætisráðuneytisins, í kringum áramótin 2015 og 2016, alls sex milljónir króna. Myndin átti að taka um það bil eitt ár í vinnslu, samkvæmt styrkumsókninni, sem RÚV fjallaði um á sínum tíma. Einnig stóð til að nýta efnið sem til félli til gerðar kennsluefnis um málefni flóttamanna fyrir grunnskóla.
Þegar styrkirnir voru veittir sátu þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem utanríkis- og forsætisráðherrar fyrir Framsóknarflokkinn og málefni flóttafólks frá Sýrlandi voru í brennidepli á sviði alþjóðamála.
„Hugmyndin er að gera heimildarmynd um móttöku og aðlögun þessara hópa hér á Íslandi og hvernig aðlögun gengur,” sagði Jóhannes Þór Skúlason um myndina við Kjarnann í upphafi árs 2016, en hann var þá aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs.
Framleiðslufyrirtækið sem gerir myndina er í eigu Árna Gunnarssonar, en hann er fyrrverandi formaður flóttamannaráðs og var einnig aðstoðarmaður Páls Péturssonar, sem var félagsmálaráðherra Framsóknarflokks í kringum aldamót. Árni hefur einnig verið varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. Skotta Film er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki.
Kjarninn spurðist nýlega fyrir um stöðu verkefnisins og í sameiginlegu svari utanríkisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins við fyrirspurninni segir að utanríkisráðuneytið hafi fylgt verkefninu eftir. Starfsmaður ráðuneytisins hefur reglulega haft samband við Skotta Film til þess að „grennslast fyrir um framgang verkefnisins“ og að ráðuneytið hefði fengið upplýsingar um að verkefnið væri „á lokastigi.“
Vonast til að myndin verði sýnd í vetur
„Hún er tilbúin núna,“ segir Árni við Kjarnann. „Það á eftir að litaleiðrétta hana og afhenda hana RÚV,“ bætir hann við, en myndin er að sögn Árna nýlega komin úr klippingu.
Hann segir vinnslu myndarinnar hafa gengið þokkalega. „Við ákváðum að taka okkur bara dálítið góðan tíma í þetta,“ segir Árni.
Við gerð myndarinnar var farið til Líbanon og hitt á hóp sýrlenskra flóttamanna sem komu til Íslands á árinu 2016 sem kvótaflóttamenn, meðal annars til Akureyrar. Hópnum var að sögn Árna fylgt eftir í þrjú ár og síðan hefur eftirvinnsla heimildamyndarinnar tekið um það bil eitt ár.
„Ég veit ekki hvenær hún verður sýnd, en ég vona að hún verði sýnd í vetur,“ segir Árni.
Styrkveitingarnar þóttu óvenjulegar
Myndin fékk sem áður segir sex milljóna króna styrk frá æðstu stöðum í stjórnkerfinu, þrjár milljónir frá þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og þrjár milljónir af sameiginlegu ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar að tillögu Sigmundar Davíðs, sem var þá forsætisráðherra.
Styrkveitingarnar vöktu nokkra athygli og setti Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi forseti Bandalag íslenskra listamanna, spurningamerki við styrkveitingu ríkisstjórnarinnar.
„Ríkisstjórninni er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig hún fer með sína fjármuni - það hefði hins vegar verið betra að setja þessa umsókn í faglegan farveg,“ sagði Kolbrún við RÚV og bætti við að hún teldi að heppilegra hefði verið að senda umsóknina til umfjöllunar hjá kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, sem þá var formaður Félags kvikmyndagerðarmanna, sagði sömuleiðis við RÚV að styrkurinn væri óvenjulegur, en það væri þó ánægjuefni ef hægt væri að leita til ríkisstjórnarinnar eftir styrkjum til heimildamyndagerðar og að styrkurinn og upphæð hans sýndi að þetta væri greinilega mikilvægt málefni fyrir forsætisráðuneytið.
Myndin kom einnig til tals á stjórnmálasviðinu, en Björn Valur Gíslason, þáverandi varaformaður Vinstri grænna, sagði styrkina til marks um spillingu. Stundin tók Árna tali á sínum tíma og spurði hann út í þessa gagnrýni og tengsl sín við Gunnar Braga Sveinsson, sem er einnig frá Sauðárkróki.
„Það að vísu vill þannig til að við eigum börn í sama bekk í skóla. En hér þekkja náttúrulega allir alla. Ef þú ert að fiska eftir því hvort ég hafi fengið þennan styrk út á kunningsskap við Gunnar Braga þá vona ég að svo hafi ekki verið,“ sagði Árni við blaðamann Stundarinnar, en í viðtalinu tók hann jafnframt fram að ekki væri um að ræða neina „áróðursmynd fyrir forsætisráðherra.“
Aðaláhersla myndarinnar átti að verða á aðlögun sýrlenskra flóttamanna að lífinu á Akureyri. „Þetta eru múslimafjölskyldur sem þurfa að aðlagast kristnu samfélagi. Það verður virkilega fróðlegt að sjá hvernig það gengur,“ sagði Árni við Stundina.