Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra og sendiherra, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Frá þessu greinir hann sjálfur í aðsendri grein sem Jón Baldvin birtir í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að lögmaður hans hafi tjáð honum að kæra hafi borist frá aðstoðarsaksóknara þar sem sakarefnið sé meint kynferðisbrot sem átt hafi sér stað í júní 2018. „Nánar tiltekið á sakarefnið að vera að hafa „strokið utan klæða upp og niður eftir rassi“ viðkomandi. Þetta á að hafa gerst í augsýn gestgjafans, konu minnar, og annarra gesta,“ skrifar Jón Baldvin. Hann segir ásakanir konunnar vera hreinan uppspuna og að trúverðug vitni hafi vottað það við rannsókn málsins, sem hafi staðið yfir í bráðum tvö ár. „Það er von að spurt sé: Á hvaða leið er ákæruvaldið?,“ skrifar Jón Baldvin.
Konur stigu fram
Fjöldi ásakana á hendur Jóni Baldvini um kynferðisbrot voru lagðar fram snemma árs 2019. Hann hefur ætið neitað þeim öllum. Ein slík ásökun, um kynferðislega áreitni, kom frá Carmen Jóhannsdóttur sem lýsti samskiptum sínum við Jón Baldvin í viðtali við Stundina. Carmen sagði að atvikið hafi átti sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu, á heimili hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans. „Þegar ég stóð upp á einum tímapunkti og fór að skenkja í glösin, þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn.“
Carmen kærði Jón Baldvin til lögreglu í mars 2019.
Jón Baldvin stefndi Aldísi Schram dóttur sinni fyrir meiðyrði í júní í fyrra. Jafnframt stefndi hann Sigmari Guðmundssyni fréttamanni og RÚV. Ástæðan var viðtal sem tekið var við Aldísi í morgunþætti á Rás 2 fyrr á því ári. Jón Baldvin krafðist þess að fjórtán ummæli í viðtali á RÚV verði dæmd dauð og ómerk, þar af tíu hjá Aldísi og fjögur hjá Sigmari. Einnig var gerð krafa um birtingu afsökunarbeiðni. Málið hefur verið þingfest en aðalmeðferð er ólokið.
Skrifar bók
Jón Baldvin segir í greininni í dag að þetta sé seinasta útspilið í skipulagðri aðför að mannorði hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, sem hafi bráðum staðið yfir í tvo áratugi. „Fimm sinnum hafa verið verið bornar fram kærur. Fimm sinnum hefur þeim verið vísað frá, þar sem tilefni til sakfellingar fundust ekki.“
Hann segir þætti í þessu máli sem varði alla. „Það á svo sannarlega við um hlutverk fjölmiðla og samfélagsmiðla í samtímanum. Það er reginmunur á rannsóknarblaðamennsku og ofsóknablaðamennsku. Í réttarríki ber að gera strangar kröfur til þess, að dómstólar láti ekki stjórnast af annarlegum hagsmunum, pólitískum rétttrúnaði eða tískuhreyfingum í almenningsáliti. Engum á að líðast að taka sér sjálftökurétt til að útskúfa einstaklingum úr samfélaginu á grundvelli upploginna sakargifta. Samt hefur það þegar gerst í okkar samfélagi, að kröfu öfgafeminista og undir merkjum MeToo: Bæði atvinnubann og félagsleg útskúfun, eins og dæmin sanna. Hvar endar sú vegferð?“
Þessi mál hafi orðið til þess að Bryndís, eiginkona Jóns Baldvins, hafi sett saman bók þar sem hún setur ofangreint í samhengi við þjóðfélagslegan veruleika. Bókin, sem heitir „Brosað í gegnum tárin“ kemur í verslanir á næstu dögum.