Karl Petersson/Birtíngur

Sterkari viðbrögð við ásökunum – í krafti fjöldans

Fyrrverandi ráðherra, sendiherra og formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur verið mikið í samfélagsumræðunni undanfarnar vikur eftir að fjórar konur stigu fram opinberlega og töluðu um meint kynferðisáreiti hans í þeirra garð. Ásakanir sem þessar eru ekki nýjar af nálinni en í kjölfar umræðunnar nú má sjá breytingu á viðhorfi almennings – þá og nú.

„Reglu­lega kemur upp hjá mér reiði, sorg eða bit­urð yfir þessu máli og nú langar mig að koma því frá mér. Þegar ég heyri um Jón Bald­vin talað í fréttum eða á net­inu, þá líður mér illa. Fjöl­skyldan mín er splundruð útaf þessu og mér finnst eins og það sé kom­inn tími til að fólk fái að vita sann­leik­ann og taki afstöðu. Ég vil að fólk lesi bréfin og sjái svart á hvítu hvað í þeim stend­ur. Sumir þykj­ast standa með mér en mæta svo í veislur til Jóns Bald­vins. Mér finnst vissu­lega skrítið að koma fram í fjölmiðlum en tel það einu leið­ina til að fá fólk til að horfast í augu við stað­reynd­ir.“

Þannig lýsir Guð­rún Harð­ar­dótt­ir, syst­ur­dóttir Bryn­dísar Schram eig­in­konu Jóns Bald­vins Hanni­bals­son­ar, árið 2012 ástæðum þess að hún steig fram í umfjöllun í Nýju lífi og sagði frá bréfum sem Jón Bald­vin, fyrr­ver­andi ráð­herra og for­maður Alþýðu­flokks­ins, sendi henni þegar hún var barn að aldri.

Tölu­vert var fjallað um málið á sínum tíma en eftir því sem árin liðu fennti yfir það og fór Jón Bald­vin að koma fram í fjöl­miðlum á ný, meðal ann­ars sem við­mæl­andi hjá Rík­is­sjón­varp­inu og eins hefur hann verið með þætti í útvarp­inu. En atburða­rás í byrjun árs kom málum Jóns Bald­vins aftur í umræð­una þegar fjórar konur stigu fram í Stund­inni og greindu frá meintu kyn­ferð­is­legu áreiti hans í garð þeirra. Í kjöl­farið var stofn­aður metoo-hópur á sam­fé­lags­miðl­inum Face­book þar sem fleiri konur greindu frá reynslu sinni af sam­skiptum og meintri ósæmi­legri hátt­semi Jóns Bald­vins. Í vik­unni var opnuð vef­síða með vitn­is­burðum þess­ara kvenna.

Frels­inu fegnar

Elsta sagan er frá árinu 1962 og sú nýjasta frá árinu 2018. Á síð­unni er að finna 23 nafn­lausar sögur þolenda af meintum kyn­ferð­is­brotum og áreiti Jóns Bald­vins sem virð­ast ná yfir nær 60 ár. Í yfir­lýs­ingu frá hópnum segir að þær konur sem standa að hópnum vilji gera sög­urnar opin­berar í anda þeirrar bylgju sem farið hefur yfir heim­inn og sam­einað konur þegar þær segja: Ég líka – Me too! „Við viljum að það sam­fé­lag sem hefur litið undan þrátt fyrir að kyn­ferð­is­brot hans hafi verið gerð opin­ber geti nú lesið þær reynslu­sögur sem er okkar sann­leik­ur. Þannig viljum við frelsa okkur frá þeirri þján­ingu sem sam­skipti við hann hafa valdið okkur í ára­tugi. Við erum frels­inu fegn­ar.“ Hægt er að lesa frá­sagn­irnar á vef­slóð­inni https://­metoo-jon­bald­vin.blog.is/blog/­metoo-jon­bald­vin/.

Elsta atvikið sem komið hefur fram opin­ber­lega í fjöl­miðlum mun hafa átt sér stað árið 1967 þegar Jón Bald­vin var kenn­ari í Haga­skóla. Þolendur meintrar áreitni hans og nem­endur við skól­ann, Matt­hildur Krist­manns­dóttir og María Alex­and­ers­dótt­ir, voru á bil­inu 13 til 14 ára.

Kveið fyrir tímum með Jóni Bald­vin

Í umfjöllun Stund­ar­innar segir Matt­hildur frá því þegar hún var nem­andi við Haga­skóla árið 1967, þegar Jón Bald­vin vann þar sem kenn­ari. „Hann fór að segja mér að ég lærði ekki nógu vel heima, sem er mjög lík­lega alveg rétt, og vildi að ég sæti eft­ir. Það var ekki í sömu kennslu­stofu heldur í her­bergi hinum megin á gang­in­um. Þar fór hann með mig inn og læsti. Þar var einn stóll og borð og hann gekk svona fram og til baka og lét mig skrifa. Hann var alltaf að beygja sig yfir mig til þess að vita hvernig ég skrif­aði. Um leið og hann beygði sig yfir mig fann ég að hann var að strjúka mér. Og hann gerð­ist alltaf nær­göng­ulli.“

Matt­hildur segir að hún hafi farið að kvíða fyrir tímunum hjá Jóni Bald­vin þar sem hann lét hana alltaf sitja eftir eina. „Ég fór að reyna að læra betur heima en það breytti engu. Hann sagð­ist bara þurfa að láta mig læra þetta bet­ur. Ég bara skynj­aði það að það væri eitt­hvað fram undan sem mundi ger­ast,“ segir hún.

Loks hafi Jón Bald­vin farið að færa sig upp á skaft­ið. „Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stól­inn hjá mér. Þetta var svona gam­all skóla­stóll með algjör­lega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig á milli mín og stól­baks­ins. Ég sat alveg á nipp­inu á stóln­um. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrj­aði að káfa á mér allri og sleikti á mér háls­inn og eyrað og kinn­ina. Ég var algjör­lega fros­in. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skamm­að­ist mín fyrir hvað væri að ger­ast.“

Ótt­að­ist að verða næst

María segir í við­tal­inu í Stund­inni að hún hafi ótt­ast að verða næst. „Hann var alltaf mjög hortugur og leið­in­legur við krakk­ana,“ segir hún og bætir því við að stuttu eftir að sam­nem­endur Matt­hildar mót­mæltu eft­ir­setu hennar hafi Jón Bald­vin alltaf verið að grúfa sig yfir hana í tím­um, eins og hann væri að skoða hvað hún væri að gera, og strjúka á henni axl­irnar í leið­inni. „Hann lagði hend­urnar yfir axl­irnar og strauk mig og grúfði sig alveg upp við and­litið á mér. Og þetta fannst mér alveg hræði­lega óþægi­leg­t.“

Loks hafi komið að því að hann hafi sagt henni að sitja eft­ir. „Þá sagði ég nei, ég vildi ekki lenda í því sama og Matt­hild­ur. Eftir það lét hann mann í friði. Þetta var alveg nóg til að maður var alltaf drullu­hrædd­ur. Ég var búin að lenda í ýmsu tvö sumur áður í sveit. Ég vissi nákvæm­lega hvað karl­inn ætl­aði sér,“ segir hún.

Þess má geta að Jón Bald­vin hefur sjálfur sagst hafa kallað eftir gögnum frá Haga­skóla sem leiði í ljós að hann hafi ekki kennt í umræddum bekk á þessum tíma. Þar af leið­andi ætli hann ekki að svara þessum ásök­unum frek­ar.

Telur nýjasta atvikið hafa verið svið­sett

„Þegar ég stóð upp á einum tíma­punkti og fór að skenkja í glös­in, þá bara gerði kall­inn sér lítið fyrir og byrj­aði að strjúka á mér rass­inn.“

Þannig lýsir Car­men Jóhanns­dótt­ir, í sam­tali við blaða­mann Stund­ar­inn­ar, sam­skiptum sínum við Jón Bald­vin en hún segir að hann hafi áreitt hana kyn­ferð­is­lega síð­asta sumar en sú saga er sú nýjasta um slíka hegðun af hans hálfu.

Þannig lýsir Car­men Jóhanns­dótt­ir, í sam­tali við blaða­mann Stund­ar­inn­ar, sam­skiptum sínum við Jón Bald­vin en hún segir að hann hafi áreitt hana kyn­ferð­is­legra síð­asta sumar en það er síð­asta dæmið um slíka hegðun af hans hálfu.

Car­men segir að atvikið hafi átti sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argent­ínu á HM í knatt­spyrnu, á heim­ili hans og Bryn­dísar Schram, eig­in­konu hans.

Í við­talið í Silfr­inu á RÚV um síð­ustu helgi sagði Jón Bald­vin að móðir Car­menar hefði hrópað upp þessa ásökun við mat­ar­borðið en sjón­ar­vott­ur, kona að nafni Hug­rún, segi að þetta hafi ekki gerst. Jón Bald­vin telur að heim­sókn mæðgn­anna til hans og Bryn­dísar í hús þeirra á Spáni hafi verið svið­sett og til þess gerð að koma höggi á hann og að mæðgurnar séu tengdar Aldísi dóttur hans.

Full­yrð­ing­arnar fárán­legar

Car­men sagði sjálf eftir við­talið við Jón Bald­vin að henni fynd­ist þetta hlægi­legt og full­yrð­ingar hans vera ótrú­leg­ar, fárán­legar og að þær dæmdu sig sjálf­ar. Í sam­tali við mbl.is eftir við­talið sagð­ist hún ekk­ert þekkja Jón Bald­vin en að hún hefði ekki átt von á því að hann færi að segja að þetta væri svið­sett. Það væri svo lang­sótt.

„Bryn­dís var í mörg ár búin að bjóða mömmu minni að koma að heim­sækja þau þarna og svo loks­ins sló hún til. Mér finnst í raun magnað að þetta hafi verið það sem hann ákvað að segja,“ sagði Car­men sem telur það ekki vera neitt mál að sýna fram á, meðal ann­ars með tölvu­póst­sam­skipt­um, að koma þeirra mæðgna hafi verið í fullu sam­ráði við Bryn­dísi.

Ára­löng bar­átta

Aldís Schram, dóttir Jóns Bald­vins og Bryn­dís­ar, hefur til margra ára reynt að koma sjón­ar­miðum sínum og reynslu­sögu á fram­færi við dræma athygli fjöl­miðla. Eftir umfjöllun Stund­ar­innar um meint brot föður hennar sagði hún í Morg­un­út­varp­inu á Rás 2 að Jón Bald­vin hefði notað bréfs­efni sendi­ráðs Íslands í Was­hington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauð­ung­ar­vi­stuð á geð­deild. Með því hefði hann mis­notað stöðu sína sem sendi­herra til þess að reka per­sónu­leg erindi.

Aldís sagð­ist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kyn­ferð­is­brota eftir að gömul skóla­systir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Bald­vin væri að áreita hana kyn­ferð­is­lega. Aldís telur að sá fundur hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauð­ung­ar­vi­stuð á geð­deild.

Hún sagði að eftir þetta hefði hann getað hringt í lög­reglu hvenær sem er til að hand­taka hana. „Um­svifa­laust er ég í járn­um, farið með mig upp á geð­deild, ég fæ ekki við­tal og það er skraut­legt að lesa þessar yfir­lýs­ingar geð­lækna. Það er um ein­hverjar ímynd­anir mínar og rang­hug­myndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ sagði hún.

„Klædd brynju rétt­læt­is­ins mun ég skjótt há loka­or­ust­una til sig­urs“

Í fyrr­nefndu við­tali í Silfr­inu sagði Jón Bald­vin þessar ásak­anir vera frá­leit­ar. „Eng­inn einn maður getur komið á nauð­ung­ar­vist­un, þar þarf að koma til álit fleiri en eins læknis og úrskurður dóms­mála­ráðu­neyt­is.“ Jón sagði að þáttur hans og Bryn­dísar eig­in­konu hans í nauð­ung­ar­vist­unum dóttur hans hefði ein­ungis verið að bregð­ast við neyð­ar­kalli lækna með því að veita sam­þykki.

Aldís óskaði í fram­hald­inu eftir því að fá að segja frá sinni hlið á mál­inu og bregð­ast við svörum Jóns Bald­vins í sam­bæri­legu við­tali í sjón­varpi. Í stöðu­upp­færslu á Face­book sagð­ist Aldís vera að safna kröftum þar til hún myndi til­neydd verða að „verj­ast þessu slæga ill­menni“ en þar vísar hún til Jóns Bald­vins.

Hún sagð­ist liggja undir feldi en það myndi ekki vara lengi. „En viti menn, klædd brynju rétt­læt­is­ins mun ég skjótt há loka­or­ust­una til sig­urs - alls óhrædd, og sigra hann og hans barn­a­níð­inga­banda­lag. Og það á opin­berum vett­vang­i,“ sagði hún í stöðu­upp­færsl­unni.

Málverk af hjónunum tekið niður

Málverk af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram, sem hefur áratugum saman hangið á vegg í matsal Menntaskólans á Ísafirði, var tekið niður í kjölfar umræðu um meint kynferðislegt áreiti hans. Frá þessu var greint í fjölmiðlum í vikunni.

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, sem er í stjórn femínistafélags Menntaskólans á Ísafirði, sagði að í kjölfar þess að konur stigu fram í janúar og greindu frá samskiptum sínum við Jón Baldvin hefði nemandi í femínistafélagi MÍ farið þess á leit við starfsfólk skólans að málverkið yrði tekið niður og var það gert samdægurs.

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari MÍ, sagði í samtali við RÚV að honum hefði ekki borist formlegt erindi um að láta fjarlægja málverkið heldur hefði það verið gert til að bregðast við ábendingum frá nemendum og starfsfólki um að málverkið ylli fólki óþægindum. Jón Reynir vildi ekki veita upplýsingar um hvar málverkið er nú niðurkomið en sagði það ekki hanga lengur á vegg í skólanum.

Jón Baldvin var fyrsti skólameistari Menntaskólans á Ísafirði á árinum 1970 til 1979 en meðal þeirra sem hafa sagt sögur sínar af kynnum við Jón Baldvin undir myllumerkinu #metoo eru fyrrverandi nemendur við skólann. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum er málverkið gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans og var fært skólanum á tíu ára stúdentsafmæli hans árið 1984. Málverkið hefur því hangið uppi í meira en þrjá áratugi. Ekki er sérstök hefð fyrir því að málaðar séu myndir af fyrrverandi skólameisturum.

Málverk eftir Pétur Guðmundsson sem hékk á veggjum MÍ.

Nú er meiri stuðn­ingur við fórn­ar­lambið

Eins og komið hefur fram hafa við­brögð almenn­ings verið tölu­vert ólík núna en fyrir sjö árum. Guð­rún Harð­ar­dóttir segir í sam­tali við Kjarn­ann að nú sé verið að taka umræð­una í meira mæli en bætir því við að það hafi ekk­ert haft upp á sig þegar hún steig fyrst fram. Hún segir að ástæðan fyrir því að þær – hún og fleiri konur – stígi fram núna sé sú að þær geti gert það í krafti fjöld­ans.

Hún seg­ist jafn­framt vona að fólk sem stígur fram núna – eins síns liðs – fái við­brögð­in: „Ég trúi þér­!“. Hún bendir á að svo­leiðis hafi ekki verið í pott­inn búið hér á árum áður. „Nú er meiri stuðn­ingur við fórn­ar­lambið,“ segir Guð­rún og bætir því við að slíkur stuðn­ingur geri fólki auð­veld­ara að stíga fram og segja frá reynslu sinni.

Skiptir máli að segja frá

Guð­rún telur að almennt sé fólk með gott hjarta­lag og vilji ekki trúa því að annað fólk geti komi illa fram við aðra. „Fólk vill ekki trúa svona við­bjóð­i,“ segir hún. Hún seg­ist vona að með tíð og tíma muni við­horfin breyt­ast til hins betra. Mik­il­vægt sé að kenna kynja­fræði og heim­speki í skólum og að fólk læri að tala sam­an.

Í sam­tali við Frétta­blaðið í vik­unni sagð­ist hún upp­lifa létti að hafa skilað skömminni. „Það skiptir svo miklu máli að segja frá og burð­ast ekki ein með sögu sína. Og að geta gert það í krafti fjöld­ans gefur manni mik­ið. Ég er enn þá alveg óhrædd og finn alveg að þó Jón Bald­vin sé að malda eitt­hvað í móinn þá hefur það engin áhrif á mig og innan hóps­ins er and­inn jákvæð­ur.“

Telur um skipu­lagða rógs­her­ferð að ræða

Í til­efni af átt­ræð­is­af­mæli Jóns Bald­vins á þessu ári stóð til að gefa út bók með ræðum hans, ritum og greinum um „frum­kvæði Íslands að stuðn­ingi við sjálf­stæð­is­bar­áttu Eystra­salts­þjóða, samn­ing­ana við ESB um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES) og Nor­ræna mód­elið sem raun­hæfan val­kost við auð­ræði nýfrjáls­hyggj­unn­ar.“ Vegna umfjöll­unar fjöl­miðla um kyn­ferð­is­lega áreitni síð­ast­liðnar vikur var útgáf­unni frestað um óákveð­inn tíma. Bókin var langt komin en ekk­ert var fjallað um ósæmi­legar bréfa­skriftir Jóns Bald­vins til Guð­rún­ar.

Í grein eftir Jón Bald­vin, sem birt­ist í Frétta­blað­inu í byrjun vik­unn­ar, heldur hann því fram að ásak­anir á hendur honum um kyn­ferð­is­brot megi útskýra sem skipu­lagða rógs­her­ferð gegn honum sem hafi verið hafin til að spilla fyrir fyr­ir­hug­aðri bók og mál­þingi um arf­leifð jafn­að­ar­stefn­unnar en það hafi staðið til í til­efni af átt­ræð­is­af­mæli hans. Hann segir að hræða hafi átt fólk frá því að kaupa bók­ina eða fagna afmæl­inu með hon­um.

Hann segir enn fremur að allir fjöl­miðlar og sam­fé­lags­miðlar hafi gagn­rýn­is­laust sleg­ist í för með „að­stand­endum rógs­her­ferð­ar­inn­ar“. Hann segir að „her­ferð­in“ hafi skilað til­ætl­uðum árangri því mál­þingið hafi verið blásið af og útgáfu bók­ar­innar frestað um óákveð­inn tíma. Jón Bald­vin segir að á næst­unni komi út bókin „Vörn fyrir æru – hvernig fámennur hópur öfga­fem­inista hefur sagt rétt­ar­rík­inu stríð á hend­ur“ til að svara öllum ásök­unum sem hafa komið fram frá nafn­greindu fólki – þar sem hinar raun­veru­legu stað­reyndir eigi eftir að koma fram.

„Þið eruð meiri hetjur en þið gerið ykkur grein fyr­ir“

Nokkrir ein­stak­lingar innan Sam­fylk­ing­ar­innar vissu af bréfum Jóns Bald­vins til Guð­rúnar áður en þau voru gerð opin­ber. Í byrjun árs 2007 hafði Jón Bald­vin verið skip­aður í heið­urs­sæti á fram­boðs­lista Sam­fylk­ing­ar­innar fyrir kom­andi alþing­is­kosn­ingar en í mars sama ár var Guð­rúnu til­kynnt að Rík­is­sak­sókn­ari hefði ákveðið að fella mál hennar gegn Jóni Bald­vini nið­ur.

Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir, fyrr­ver­andi for­maður Sam­fylk­ing­ar­innar og ráð­herra, fékk vit­neskju um bréfin og þar af leið­andi aðgang að þeim. Í kjöl­farið boð­aði hún Jón Bald­vin til fundar ásamt Degi B. Egg­erts­syni borg­ar­full­trúa þar sem Jóni Bald­vini var tjáð að hann yrði fjar­lægður af fram­boðs­lista flokks­ins.

Hún greindi frá því í stöðu­upp­færslu inn á metoo-hópnum á Face­book að Jón Bald­vin hefði brugð­ist illa við en hún sagði nauð­syn­legt að halda þessu til haga í ljósi þess algjöra skorts á sóma­kennd sem Jón Bald­vin hefði sýnt að und­an­förnu. Ingi­björg Sól­rún lýkur færslu sinni á því að segja að Aldís Schram og Guð­rún séu meiri hetjur en þær geri sér grein fyrir og hrósar um leið hinum kon­un­um.

„Ég tek ofan fyrir þeim konum sem hafa ákveðið að taka slag­inn við JBH og láta ekki undan síga þó að hann beiti öllum til­tækum vopnum sem finn­ast í vopna­búri hinnar eitr­uðu karl­mennsku. Sér­stak­lega vil ég segja við Aldísi og Guð­rúnu – þið eruð meiri hetjur en ég held þið gerið ykkur grein fyr­ir,“ segir hún í færsl­unni.

Telur sig hafa átt að taka mál­stað Guð­rúnar

Í byrjun árs 2012 – rétt áður en við­talið við Guð­rúnu birt­ist í Nýju lífi – var Jón Bald­vin leið­bein­andi á nám­skeiði Sam­fylk­ing­ar­fé­lags­ins í Reykja­vík þar sem fjall­aði var um skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar Alþingis um banka­hrunið en það var ein­ungis opið flokks­mönn­um.

Kjartan Val­garðs­son, þáver­andi for­maður Sam­fylk­ing­ar­fé­lags­ins í Reykja­vík, sagði í sam­tali við Kjarn­ann í jan­úar síð­ast­liðnum að vit­neskjan um bréfin hefði komið fram á þriðja degi nám­skeiðs­ins og þá hefði einn dagur verið eft­ir. „Ég tel að við höfum tekið ranga ákvörð­un, að láta hann klára nám­skeið­ið. Ég sé það núna að ég hefði átt að taka mál­stað Guð­rún­ar,“ sagði hann.

Í frétt Stund­ar­innar um málið sagði Kjartan að hann hefði rætt málið við Jón Bald­vin. „Hann var ekki ánægð­ur, eins og þú getur ímyndað þér. Ég vildi bara láta hann vita að ég vissi af þessu og „con­frontera“ hann með þetta. Auð­vitað var það álita­mál hvort það ætti að láta hann halda áfram eða ekki. Þetta varð hins vegar til þess að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir sagði sig úr Sam­fylk­ing­ar­fé­lag­inu í Reykja­vík. Mér fannst vont að missa þessa miklu for­ystu­konu úr félag­in­u.“

Segja má að áber­andi við­snún­ingur hafi átt sér stað síðan Guð­rún steig fyrst opin­ber­lega fram árið 2012. Það má ber­sýni­lega sjá á við­brögðum almenn­ings á sam­fé­lags­miðlum og í frétta­flutn­ingi. Þannig hafa fleiri konur stigið fram og sagt frá reynslu sinni og upp­lif­un­um. Einnig hafa framá­menn og kon­ur, sem áður þögðu, komið fram og tekið afger­andi afstöðu sem ekki var algengt fyrir ein­ungis nokkrum árum síð­an.

Frétta­skýr­ingin birt­ist einnig í Mann­lífi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar