Hvorki Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi þingmanni og ráðherra, né Kristínu Þorsteinsdóttur, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins, sem sóttust báðar eftir starfi útvarpsstjóra RÚV fyrr á þessu ári, var mismunað þegar Stefán Eiríksson var ráðinn í starfið í janúar síðastliðnum.
Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar jafnréttismála í aðskildum málum kvennanna tveggja, sem kærðu báðar RÚV til nefndarinnar vegna þess að þær töldu að ráðning á karlmanni í stöðu útvarpsstjóra hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ásamt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu í báðum málunum að almennt giltu hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu starfsmanna opinberra hlutafélaga eins og RÚV, heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar. Ráðning á útvarpsstjóra lyti þar með lögmálum vinnuréttar fremur en opinbers starfsmannaréttar.
Í úrskurðum nefndarinnar segir að „sú staða opinbers hlutafélags sem löggjafinn hefði ljáð kærða hefði þýðingu við úrlausn málsins þar sem kærði nyti samkvæmt framangreindu aukins svigrúms samanborið við opinbera veitingarvaldshafa við mat á því hvaða sjónarmið skyldu lögð til grundvallar við ráðningar sem og við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim sjónarmiðum.“
Ekki gerð athugasemd við ráðningu karlsins
Í úrskurði kærunefndarinnar í máli Kolbrúnar segir að nefndin hafi ekki gert athugasemd við „það mat kærða að karlinn hefði staðið kæranda framar í þeim tveimur matsflokkum sem vógu þyngst í ráðningarferlinu, þ.e. reynslu af stjórnun og rekstri, sem hafði 34 prósent vægi, og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu, sem hafði 26 prósent vægi. Heilt á litið taldist kærandi ekki hafa leitt líkur að því að henni hefði verið mismunað við ráðningu í starf útvarpsstjóra, enda þótt nefndin hefði sett fram ákveðnar aðfinnslur við mat kærða á menntun kæranda og matsflokknum „fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmál“.“
Önnur komst í lokahópinn, hin ekki
Alls sóttu 41 um starf útvarpsstjóra áður en að umsóknarfrestur rann út seint á síðasta ári. Af þeim voru 19 umsækjendur boðaðir í starfsviðtal. Þar á meðal voru bæði Kolbrún og Kristín.
Að loknu öðru mati var ákveðið að leggja persónuleikapróf fyrir fjóra umsækjendur. Einn þeirra var Kolbrún en Kristín var ekki í lokahópnum. Að lokum var Stefán Eiríksson, þá borgarritari Reykjavíkur og fyrrverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, ráðinn í starfi
Kolbrún hefur meðal annars starfað sem leikstjóri í Þjóðleikhúsinu og stýrt Bandalagi íslenskra listamanna. Hún var einnig þingmaður Vinstri grænna í áratug og var umhverfisráðherra um nokkurra mánaða skeið árið 2009.
Kristín var fréttamaður á RÚV, um tíma yfirmaður samskiptasviðs Baugs og útgefandi og aðalritstjóri fjölmiðlafyrirtækisins 365 miðla á árunum 2014 til 2018. Frá því ári, og fram á árið 2019, starfaði hún sem ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, frettabladid.is og Glamour. Hún lét af störfum þar í fyrrahaust eftir að nýir eigendur, undir stjórn Helga Magnússonar, keyptu rekstur Fréttablaðsins og tengdra miðla.