Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður var mættur á upplýsingafund almannavarna í dag að venju og spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni hvort til skoðunar væri að stytta þá sóttkví sem fólk þarf að fara í eftir að hafa verið útsett fyrir smiti hér innanlands.
„Já, ég ætlaði nú ekki að tala um þetta núna, ég ætlaði að geyma þetta þar til síðar,“ sagði Þórólfur við Björn Inga, en sagði þetta þó „alveg hárrétt“ hjá honum.
Núna þurfa allir sem verða útsettir fyrir smiti að fara í 14 daga sóttkví, en Þórólfur sagði að það væri svo að flestir sem væru í raun smitaðir væru komnir með einkenni töluvert fyrr. Það væri því til skoðunar að taka sýni úr fólki í sóttkví, til dæmis á sjöunda degi, og fólk gæti þá verið laust úr sóttkví fyrr en áður hefur verið.
„Veiran greinist hjá einstaklingum kannski 2-3 dögum áður en einkenni hefjast og það kemur vel til álita að taka sýni kannski á sjöunda degi [...] og stytta þannig sóttkvína. Við erum að skoða útfærsluna tæknilega og ég held það væri mjög til bóta,“ sagði Þórólfur.
Alls eru 307 manns í sóttkví á Íslandi í dag og hefur fjöldi þeirra farið sígandi undanfarna daga.
Grínaðist með mál Greenwood og Foden
Þórólfur var á fundinum í dag spurður út í mál ensku fótboltamannanna sem hefur verið í hámæli í fjölmiðlum víða um heim í dag eftir að fyrst var greint frá á fótboltavefnum 433.is í morgun.
Tveir ungir knattspyrnumenn í enska landsliðinu, Mason Greenwood og Phil Foden, voru í samskiptum við ungar íslenskar konur á hóteli enska liðsins um helgina, þvert á gildandi reglur.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar mál þeirra, en þeir hafa einnig báðir verið teknir út úr enska landsliðshópnum og fara ekki með liðinu til Danmerkur, þar sem næsti leikur liðsins er, heldur beint heim til Englands á ný.
„Það ætti að ógilda úrslitin í leiknum og jafnvel úrskurða úrslitin okkar megin,“ sagði Þórólfur og hló, áður en hann staðfesti að þarna væri „klárlega“ um brot á sóttkví að ræða.