Donald Trump Bandaríkjaforseti vissi strax í upphafi febrúarmánaðar að kórónuveiran gæti valdið miklu manntjóni í Bandaríkjunum og að hún smitaðist manna á milli í andrúmsloftinu. Þjóðaröryggisráðgjafi hans var búinn að segja honum, þegar í lok janúar, að veiran yrði það erfiðasta sem hann þyrfti að takast á við í forsetatíð sinni.
En Trump ákvað að yfirlögðu ráði að gera lítið úr hættum veirunnar opinberlega, að eigin sögn til þess að valda ekki skelfingu í samfélaginu. Anthony Fauci telur hann einungis hugsa um endurkjör. Forsetinn gerði ítrekað lítið úr veiruógninni, en hafði þó sagt við blaðamanninn Bob Woodward að veiran væri „banvænt dót“, mun hættulegri en flensan og „svo smitandi, að þú myndir ekki trúa því.“
Þetta er á meðal ýmissa afhjúpana í nýrri bók Woodward, Rage, sem er væntanleg í almenna sölu í næstu viku. Fyrstu fréttir af innihaldi bókarinnar fóru að birtast í bandarískum fjölmiðlum í gær og þeim á forsetinn erfitt með að verjast, þar sem hann sjálfur tók þá ákvörðun að veita Woodward leyfi til að hljóðrita alls 18 einkaviðtöl, sem bókin byggir á auk annars. Þá er erfitt að segja að um falsfréttir sér að ræða.
Bob Woodward er þrautreyndur blaðamaður Washington Post og þekktastur fyrir þátt sinn í að afhjúpa Watergate-skandalinn sem leiddi til afsagnar Richard Nixon. Hann gaf út aðra bók um embættisstörf Trumps árið 2018 sem bar titilinn Fear.
Ýmsir hafa spurt sig að því af hverju Trump ákvað að veita Woodward svona náinn aðgang að sér. New York Times hefur eftir heimildarmönnum í Hvíta húsinu að Trump hafi verið að vonast til þess að bók Woodward yrði sér jákvæð. Hann hafi talið að það myndi koma betur út fyrir sig að taka þátt í bókarskrifum Woodwards en að neita Woodward um viðtöl, eins og hann gerði fyrir útgáfu Fear. Hann hélt að hann gæti heillað Woodward.
Miðað við það sem birst hefur úr bókinni í bandarískum miðlum virðist þó allt annað en fögur mynd vera dregin upp af forsetanum, sem berst nú fyrir endurkjöri og hefur á brattann að sækja samkvæmt skoðanakönnunum.
Bók Woodward er ekki sú eina um Trump sem er í umræðunni þessa dagana. Ótrúlegt magn bóka um forsetann hefur komið út vestanhafs frá því að hann tók við embætti, alls yfir 1.200 titlar. Nokkrar eru nýkomnar og þó nokkrar til viðbótar eru væntanlegar. Kjarninn tók saman nokkrar þeirra.
Mary L. Trump - Too Much and Never Enough
Frænka forsetans, sem er sálfræðingur að mennt, gaf út bók um Donald frænda í sumar, sem bar honum ekki vel söguna. Hún sagði hann meðal annars hafa fengið ástlaust uppeldi og það væri því engin furða að hann væri sá maður sem hann er í dag.
Hún sagði forsetann vera sósíópata sem væri ábyrgur fyrir „fjöldamorði“, með því að hafa mætt útbreiðslu kórónuveirunnar með kæruleysisfasi.
John Bolton - The Room Where it Happened: A White House Memoir
Í júní gaf fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafinn út bók þar sem hann lýsti Trump sem einstaklega einföldum manni. Hvíta húsið reyndi að stöðva útgáfu bókarinnar á grundvelli þess að þar væru trúnaðarupplýsingar, en á meðal þess sem kom fram var að Trump hefði beðið Xi Jinping forseta Kína um að hjálpa sér að ná endurkjöri á G20 fundinum í Japan í fyrra.
Einnig sagði Bolton frá því að Trump hefði verið mjög nálægt því að draga Bandaríkin út úr Atlantshafsbandalaginu árið 2018, svo eitthvað sé nefnt, sökum þess að hann var óánægður með að Bandaríkin væru að borga of mikið í samanburði við hernaðarútgjöld bandamanna.
Brian Stelter - Donald Trump, Fox News, and the Dangerous Distortion of Truth
Fréttamaður CNN rekur meðal annars í bók sinni, sem kom út í ágúst, hvernig Fox News átti þátt í því að stuðla að upplýsingaóreiðu um kórónuveirufaraldurinn.
Í bókinni segir hann að frá sambandi forsetans við Fox News og hvernig fréttastöðin, sem er sú sem mest áhorf hefur í Bandaríkjunum, fer frjálslega með staðreyndir og leikur „lykilhlutverk í stríðinu gegn sannleikanum,“ eins og höfundurinn orðar það í viðtali við New York Times.
Michael Cohen - Disloyal: A Memoir
Fyrrverandi lögmaður Trumps, sem afplánar nú fangelsisdóm, ritaði bók sem kom út á þriðjudag. Þar segir Cohen að forsetinn sé svikari, lygari, óþokki og rasisti, svo eitthvað sé nefnt. Á meðal þess sem fjölmiðlar hafa fjallað um úr bókinni eru meint ummæli Trumps þess efnis að hann muni aldrei ná til Bandaríkjamanna af rómönsku bergi brotnu, né blökkumanna. Báðir kjósendahópar séu „of heimskir til að kjósa Trump.“
Cohen sjálfur er reyndar sjálfur dæmdur lygari og svikari og Hvíta húsið hefur brugðist við útgáfu bókarinnar með því að segja að það komi ekki á óvart að maður með þá ferilskrá reyni að hagnast á að gefa út lygasögur um forsetann.
Michael S. Schmidt - Donald Trump v. The United States: Inside The Struggle To Stop a President
Rannsóknarblaðamaður New York Times skrifaði bók um fjögur ár Trumps í embætti, sem kom út 1. september. Í henni segir hann meðal annars að persónuleg tengsl forsetans við rússnesk yfirvöld hafi ekki verið rannsökuð í þaula, þrátt fyrir allar rannsóknir undanfarinna ára.
Bókin byggir m.a. á viðtölum við James B. Comey, sem stýrði alríkislögreglunni FBI og Donald McGahn, fyrrverandi lögmanni Hvíta hússins. Samkvæmt frásögnum þeirra, sem tæpt er á í bókadómi Washington Post, reyndu þeir að koma böndum á forsetann er þeir störfuðu við hlið hans og hlutu bágt fyrir.
Núna, segir Schmidt í bókinni, eru fáir eftir á æðstu stöðum í Bandaríkjastjórn sem eru þess megnugir að veita forsetanum mótstöðu og segir hann dómsmálaráðherrann Bill Barr sérstaklega hliðhollan forsetanum.
Rick Gates - Wicked Game
Fyrrverandi starfsmaður framboðs forsetans árið 2016, sem gerðist svo lykilvitni í Mueller-rannsókninni, ætlar að gefa út bók í október.
Lítið hefur heyrst um hvað í henni verður, en líklegt er að hún muni vekja athygli. Gates segist sjálfur ætla að varpa nýju ljósi á Mueller-rannsóknina, en á kápu bókarinnar segir að þetta sé saga innherja um það hvernig Trump vann, Mueller mislukkaðist og Bandaríkin töpuðu.
Seljast betur ef Trump er ekki hrifinn af þeim
Þetta er ekki tæmandi listi yfir þær bækur um forsetann sem eru nýlega komnar eða væntanlegar, en líklegt er að þessar vekji einna mesta athygli núna á næstunni. Bækur um Trump hafa margar hverjar selst vel, sérstaklega þær sem forsetinn er óánægður með.
Má þar nefna bækur á borð við Fire and Fury eftir Michael Wolff og Unhinged eftir Omarosu Manigault, sem báðar komu út árið 2018, auk fyrri bókar Woodward. Einnig má nefna A Very Stable Genius eftir Philip Rucker og Carol Leonnig, blaðamenn Washington Post, sem kom út í upphafi þessa árs og A Warning, bók eftir óþekktan höfund sem lýst er sem háttsettum embættismanni í Trump-stjórninni, sem kom út seint árið 2019.
Eins og einn útgefandi sagði við New York Times í nýlegri umfjöllun, þá „biðuru þess að Trump hati bókina þína, og þú biður þess að hann tísti um hana.“