Sundabraut er hagsmunamál allra landsmanna, sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn í Silfrinu á RÚV í morgun þar sem farið var yfir ýmsa þætti borgarmálanna. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs og fulltrúi Pírata í borgarstjórn, sagði Sundabraut ekki slæman valkost en þó aðeins ef hún yrði ekki hraðbraut sem myndi rýra loftgæði og kljúfa hverfi.
Sundabraut er nú enn einu sinni komin inn í umræðuna. Leiðin sem hefur verið á teikniborðinu í marga áratugi. Markmið Sundabrautar hefur m.a. verið það að tengja hverfi borgarinnar betur saman en einnig að létta á umferð á öðrum stofnbrautum.
En frá því að Sundabraut var fyrst nefnd til sögunnar hefur ýmislegt breyst í straumum og stefnum skipulagsmála og áhersla síðustu ára hjá Reykjavíkurborg hefur legið í því að bæta almenningssamgöngur og aðgengi hjólandi og gangandi vegfarenda. Nú er nefnd að störfum sem á að skoða fýsileika tveggja valkosta við Sundabraut: Að hafa hana í brú eða jarðgöngum.
Sigurborg sagði við skoðun á Sundabraut yrði að taka með í reikninginn hvaða áhrif hún myndi hafa á borgarbúa. „Ef við ætlum að byggja Sundabraut sem hraðbraut þá mun hún kosta okkur mörg mislæg gatnamót og hún mun skera Grafarvoginn og Vogabyggð og byggðina þar í kring mjög mikið. Og hún mun hafa mjög neikvæð áhrif á loftgæði, neikvæð áhrif á umferð og hún mun skapa aukna [bíla]umferð.“
Lestu meira
Hún sagði Sundabraut í sjálfu sér ekki slæman valmöguleika en hún yrði þá að vera hugsuð fyrir alla samgöngumáta. Þá myndi hún ekki hafa jafn neikvæð áhrif á borgarbúa og ef hún yrði gerð að hraðbraut fyrir bíla.
Þurfum tengingar og brýr
„Það gleymist stundum að við erum borgin við sundin,“ sagði Eyþór. „Við erum með takmarkaðar tengingar. Við, eins og Stokkhólmur og San Francisco, erum þannig að við þurfum brýr. Við þurfum tengingar og brautir sem tengja svæðin saman. Sundabrautin tengir ekki bara Reykjavík heldur höfuðborgina við Vesturland og Norðurland. Þetta er hagsmunamál alls landsins og órjúfanlegur hluti samgöngusáttmálans. Sundabraut er ekki bara einhver hugmynd inni í sáttmálanum, hún er hluti sáttmálans. Borgin þarf að klára þessi skipulagsmál.“
Sagði hann því skjóta skökku við að verið væri að byggja hverfi þar sem bíllaus lífsstíll yrði í hávegum hafður „þvert á vegstæði Sundabrautar“ á sama tíma og borgarstjóri hafi boðað að Sundabrautin ætti ekki að vera við hliðina á íbúabyggð. „Það er ákveðin vanvirðing við verkefnið.“
Sagðist hann sammála seðlabankastjóra um að klára hefði átt Sundabraut fyrir löngu. „Ef við skipuleggjum ekki framtíðina þá verður hún klúður. Og við erum búin að sjá of mörg klúður.“ Fleiri stofnæðar í borginni væru nauðsynlegar.
Peningar til fyrir skynsamleg verkefni
Sigurborg sagði það ekki þannig að með uppbyggingu nýrra hverfa væri verið að koma í veg fyrir að Sundabraut verði möguleg. Í Gufunesi væri að hefjast uppbygging íbúðabyggðar sem vissulega væri nálægt því vegstæði sem nefnt hafi verið fyrir Sundabraut í fjóra áratugi. Uppbygging Vogabyggðar, „þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir því að Sundabraut ætti að liggja,“ er svo þegar hafin. „Ég held að íbúar Reykjavíkur vilji frekar fá íbúðir fyrir almennan markað og fyrir fjölbreyttan hóp fólks heldur en hraðbraut á þennan stað.“
Sagði hún það „galna röksemdafærslu“ halda því fram að ekki væru til 100 milljarðar fyrir nýjan flugvöll og þess vegna yrði að byggja upp í Keldnalandi og Örfirisey og leggja Sundabraut, framkvæmd upp á 70 milljarða. „Þá ertu ekki að taka ákvörðun sem er best fyrir íbúana, ekki að taka ákvörðun sem er best fyrir loftslagið og þetta er furðuleg ákvörðun sem er byggð á einhverri fortíðarþrá.“
Eyþór benti á að það væri borgin sjálf sem hefði samþykkt að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýri þar til annar kostur kæmi fram. „Sundabraut er huguð sem sjálfbær framkvæmd þar sem þeir borga sem nota. Það liggur ekki fyrir að innanlandsflugið geti borgað 100 milljarða framkvæmd, þvert á móti þá er núna verið að tala um neyðarráðstafanir til að halda því uppi. Þannig að það eru ekki til peningar til að flytja flugvöllinn.“
Sigurborg sagðist ekki vilja trúa því að ekki væru til peningar til að byggja borg fyrir fólk en að það væru til fjarmunir til að breyta borginni „í umferðareyju“.
„Peningar eru til í þau verkefni sem menn telja skynsamleg,“ svaraði Eyþór þá. „Ef borgarlínan væri góður kostur í framkvæmd þá tel ég að það væri best að þið mynduð bjóða verkefnið út og að lífeyrissjóðir og aðrir gætu tekið að sér framkvæmdina. Sundabraut er talin vera kostur sem gengur upp fjárhagslega.“
Þetta viðhorf Eyþórs fannst Sigurborgu sýna að hann hefði ekki grundvallarskilning á því hvernig almenningssamgöngur virka. „Hið opinbera þarf alltaf að styðja við almenningssamgöngur og þær hafa miklu betri áhrif á samfélagið í heild sinni, þær hafa alltaf það jákvæð áhrif að það borgar sig fyrir opinbera aðila að styðja við almenningssamgöngur.“
Benti hún svo á að framkvæmdir við borgarlínu væru þegar komnar af stað að vissu leyti, við nýja meðferðarkjarna Landspítalans og í Vallahverfi í Hafnarfirði. Þær færu svo af stað af þunga á næsta og þarnæsta ári. „Þannig að þetta er bara handan við hornið“.