Skúli Skúlason eigandi flugfélagsins PLAY segir erlendan aðila munu eiga töluverðan hluta af flugfélaginu í framtíðinni. Þó verði eigendahópurinn að langmestu leyti íslenskur. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali Kjarnans við Skúla og Arnar Má Magnússon, forstjóra flugfélagsins.
Í viðtalinu segir Skúli að þrír hópar fjárfesta muni standa að félaginu, en svo verði öðrum fjárfestum boðið að fylgja með: “Við erum komin langt með að loka viðræðum við einn hóp og erum síðan í viðræðum við nokkra aðra sem gætu verið hugsanlegur þriðji aðili í þessum kjarna.”
Aðspurður hvaðan þessir hópar koma segir Skúli að eigendurnir muni að langmestu leyti verða íslenskir. “Það er erlendur aðili sem er með ágætis hlut samt, en kemur með mikil verðmæti að borðinu fyrir reksturinn og fyrir félagið,” bætir hann við.
Í viðtalinu sagði Arnar Már að eigendaskiptin hafi einnig falið í sér stefnubreytingu, þar sem fjármögnunin kæmi nú að öllu leyti frá eigendum félagsins, en ekki frá lántakendum. Flugfélagið hafði áður tryggt sér vilyrði um lán frá breska fjárfestingarsjóðnum Athene Capital í fyrra að andvirði rúmra 5,5 milljarða króna.