Almennt má segja að ef hörðum sóttvarnaráðstöfunum er beitt á landamærum þá er hægt slaka á ráðstöfunum innanlands, og öfugt, skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í nýjasta minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra. Hann segir nánast útilokað að nota „skapalón“ til að áhættumeta útbreiðslu veirunnar og grípa þannig til staðlaðra viðbragða á tilteknum tímum.
„Ég tel því að núverandi fyrirkomulag um almennar og opinberar sóttvarnaaðgerðir eins og sóttvarnalög segja fyrir um tryggi best fagleg viðbrögð vegna COVID-19. Þegar kemur hins vegar að mati á áhrifum sóttvarnaráðstafana á efnahag og atvinnulíf er það utan sérfræðiþekkingar sóttvarnalæknis.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti minnisblaðið á fundi ríkisstjórnar í dag en í því er fjallað um þá þætti sem sóttvarnalæknir leggur til grundvallar að tillögum til heilbrigðisráðherra um takmarkanir og aðgerðir vegna COVID-19.
Frá því að faraldur COVID-19 hófst hér á landi í lok febrúar 2020 hafa opinberar aðgerðir gegn faraldrinum falist í almennum og opinberum sóttvarnaráðstöfunum eins og þær eru skilgreindar í sóttvarnalögum nr. 19/1997. Samkvæmt lögunum þá ákveður heilbrigðisráðherra að fengnum tillögum frá sóttvarnalækni hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana en sóttvarnalæknir getur beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef hann telur að hvers konar töf sé hættuleg en gera skal hann ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.
Tillögur og ákvarðanir sóttvarnalæknis er varða sóttvarnir vegna COVID-19 byggja m.a. á faraldsfræði sjúkdómsins innanlands sem og erlendis. „Líkurnar á því að veiran (SARS-CoV-19) berist hingað til lands eru einkum háðar útbreiðslu hennar erlendis, fjölda einstaklinga sem ferðast hingað til lands, frá hvaða löndum/svæðum þeir koma og hversu líklegir þeir eru að bera með sér smit,“ skrifar Þórólfur. „Líkur á dreifingu veirunnar innanlands fara síðan eftir því hversu lengi einstaklingar dvelja hér á landi, hversu náið samneyti þeir hafa við Íslendinga og hversu vel þeir sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum.“
Tillögur sóttvarnalæknis hafa einnig byggst á skimunum fyrir veirunni og rannsóknum á sjúkdómnum í samfélaginu. „Þar sem að COVID-19 sjúkdómurinn er í mörgum tilfellum einkennalítill/-laus þá geta margir einstaklingar ferðast um ógreindir og smitað aðra,“ bendir Þórólfur á. Þá þarf einnig að taka tillit til smithæfni veirunnar.
Einnig gerir sóttvarnalæknir sínar tillögur út frá alvarleika sjúkdómsins og getu heilbrigðiskerfisins til að annast sjúklinga sem með hann greinast.
Þórólfur skrifar að einnig sé mikilvægt að taka ákvarðanir út frá samfélagslegum áhrifum og trúverðugleika ráðstafana.
„Þannig er ljóst að marga þætti þarf að vega og meta þegar grípa þarf til almennra og/eða opinberra sóttvarnaráðstafana vegna COVID-19,“ skrifar hann í minnisblaði sínu. „Ýmsir þættir sem nefndir hafa verið eru mælanlegir meðan að á aðra þætti þarf að leggja huglægt mat enda margt enn á huldu varðandi veiruna SARS-CoV-2 og sjúkdóminn COVID-19.“
Umræður hafa verið uppi hérlendis og erlendis um hvort ekki sé hægt að nota „skapalón“ til að áhættumeta útbreiðslu veirunnar og grípa þannig til staðlaðra viðbragða á tilteknum tímum. „Þar sem að áhættumat á hverjum tíma byggir á fjölda þátta sem nefndir hafa verið hér að ofan þá tel ég nánast útilokað að nota slíkt skapalón á þennan máta. Þó er unnið að skilgreiningum fyrir fyrirtæki og ýmiskonar starfsemi til að styðjast við þegar mat er lagt á viðbrögð hverju sinni t.d. sem snúa að upplýsingamiðlun.“
Hann lýkur minnisblaðinu á að þeim orðum að hann telji núverandi fyrirkomulag um almennar og opinberar sóttvarnaaðgerðir tryggja best fagleg viðbrögð vegna COVID-19. Þegar komi hins vegar að mati á áhrifum sóttvarnaráðstafana á efnahag og atvinnulíf sé það utan sérfræðiþekkingar sóttvarnalæknis.