Brýnasta verkefnið til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum er að tvöfalda flutningslínur inn á suðurfirðina. Þeim áformum hefur verið flýtt og eiga framkvæmdir að hefjast árið 2022. Þetta segir Magni Þór Pálsson, verkefnisstjóri rannsókna hjá Landsneti.
Karl Ingólfsson leiðsögumaður og þátttakandi í starfi grasrótarhópsins Jarðstrengja, segir umræðuna um Hvalárvirkjun hafa tafið úrbætur á raforkukerfi Vestfjarða en nú þegar áformin séu komin á ís verði vonandi hætt að horfa á „óraunhæfar lausnir“ og farið í það „sem raunverulega kemur að gagni“.
Magni og Karl eru sammála um að vandamálið á Vestfjörðum sé ekki orkuskortur heldur afhendingaröryggið. Mikilvægt sé að finna leiðir til að tryggja hnökralausa yfirfærslu á varaafl þegar straumleysi verður og benda þeir á að framþróun hafi verið í slíkum lausnum síðustu ár.
Þetta er meðal þess sem fram kom í máli þeirra á fundi Landverndar um orkuöryggi á Vestfjörðum sem fram fór um síðustu helgi.
„Við vitum það að afhendingaröryggi á Vestfjörðum hefur verið með því lægsta sem gerist í flutningskerfinu á Íslandi,“ sagði Magni. Aðeins ein meginflutningslína liggur inn á Vestfjarðakjálkann, Vesturlína. Út frá henni taka við tvær línur frá Mjólkárlínu; Tálknafjarðarlína og Breiðdalslína. „Landslag á Vestfjörðum er eins og allir þekkja sem þangað hafa komið fjöllótt og frekar óblítt og ekki alls staðar hentugt til raflagna, hvort sem er loftlínur eða rafstrengir,“ sagði Magni. „Eins er veðurfar með þeim hætti að loftlínur eru útsettar fyrir ísingu og sterkum vindi. Einnig eru á svæðinu langar vegalengdir en tiltölulega lítil orkunotkun.“
Ýmsar úrbætur hafa verið gerðar síðustu ár. Bolungarvíkurlína 2 var t.d. lögð í jarðstreng í Óshlíðargöngin þegar þau voru gerð. Sett var upp stór varaaflsstöð í Bolungarvík ásamt snjallneti svokölluðu sem lágmarkar straumleysi þegar norðanverðir Vestfirðir missa tengingu við flutningskerfið. Spennuafl í Mjólká var aukið og eins hafa tengivirki Landsnets í Bolungarvík og á Ísafirði verið endurnýjuð og yfirbyggð.
Samkvæmt nýrri kerfisáætlun Landsnets til ársins 2029 á að hefja framkvæmdir við nýtt tengivirki í Hrútatungu þegar á næsta ári. Það tengivirki er á lykilstað í kerfinu en þaðan fer byggðalínan út á Vestfirðina. Í vonskuveðrum síðasta vetur átti Landsnet í miklu basli með þetta tengivirki og verður hið nýja yfirbyggt.
Samkvæmt framkvæmdaáætlun verður svo farið í styrkingu á flutningskerfinu á suðurfjörðunum árið 2022 og árið síðar stendur til að endurnýja tengivirki í Breiðadal. Á tíu ára áætlun er svo verkefni sem kallast áttan og felur í sér tvöföldun flutningslína frá Mjólká og í Breiðadal. Þegar hefur verið lagður jarðstrengur um Dýrafjarðargöng sem unnið er að. „Ástandið hefur farið batnandi þó að margt megi en bæta og við erum fyllilega meðvituð um það,“ sagði Magni.
Karl benti á að á Vestfjörðum væri einungis notað um 1 prósent þeirrar raforku sem framleidd væri í landinu. Það væri hart að búa við óáreiðanlegt rafmagn í landi þar sem framleidd er meiri raforka á hvern landsmann en nokkur staðar annars staðar. „Það er eins og að búa við kaffileysi í Brasilíu eða fá ekki soðningu hér á Íslandi þar sem aflað er tveggja tonna af fiski á mann á ári.“
Umræðan um raforkuöryggi á Vestfjörðum hafi síðustu ár að miklu leyti snúist um Hvalárvirkjun. Hann rifjaði upp að þegar virkjanahugmyndin kom fyrst fram hafi verið rætt um að tengja hana beint inn á Ísafjörð, þ.e. inn í endann á raforkukerfi svæðisins þar sem þörfin og eftirspurnin væri mest, en að síðari ár hafi verið horfið frá því og til staðið að tengja hana við meginflutningskerfið í Kollafirði en þaðan eru tugir kílómetra þangað sem notkunin er mest og leiðin útsett fyrir áföllum. Á sama tíma, þ.e. á árunum 2015-2016, hafi HS orka, sem er meirihlutaeigandi Vesturverks, lent í vandræðum með rekstur Reykjanesvirkjunar og bráðvantað rafmagn. „Þeir áttu ekki nóg rafmagn fyrir sína viðskiptavini þegar álagið var mest hjá þeim og þurftu að kaupa það sem uppá vantaði dýrum dómum.“
Síðan þá er HS orka búin að „ná upp dampi“ í Reykjanesvirkjun, er komin með 42 MW vinnslugetu í smávirkjunum og leyfi til aukinnar orkuvinnslu í Reykjanesvirkjun. „Þannig að hagur þessa raforkuframleiðanda er orðinn mun betri í dag heldur en þegar unnið var að undirbúningi Hvalárvirkjunar,“ sagði Karl. Nú eru hins vegar allt aðrar aðstæður á raforkumarkaði og framkvæmdum við Hvalárvirkjun verið slegið á frest um ótilgreindan tíma.
„Það er ekki orkuskortur á Vestfjörðum,“ benti Karl á. „Vestfirðir eru tengdir landskerfinu og það er næg flutningsgeta til að koma þeirri orku sem Vestfirðingar kjósa að kaupa vestur. Vandinn er þegar kerfið bilar.“
Hægt er að leggja hluta af flutningskerfinu á Vestfjörðum í jörð en svigrúmið er ekki mikið að sögn Magna. Jarðstrengir hafa verið lagðir samhliða jarðgöngum og einnig er verið að skoða, við tvöföldun flutningslína sem standa fyrir dyrum á ákveðnum svæðum, hvaða kaflar séu hvað útsettastir fyrir bilunum í vondum veðrum og beri að leggja í jörð.
Ýmislegt hefur áhrif á hið svokallaða skammhlaupsafls sem takmarkar lengd jarðstrengja innan kerfa. Samkvæmt langtímaáætlun Landsnets stendur til að leggja nýja flutningslínu frá Blöndu og í Hvalfjörð og myndi sú lína væntanlega hafa viðkomu í Hrútatungu. Við þetta mun kerfisstyrkurinn á Vesturlínu aukast og opnast þar með möguleikar til frekari strengjalagna. Það mun þó ekki mælast í tugum kílómetra en yrði væntanlega nóg til að hægt væri að taka af verstu kafla loftlínunnar.
Karl benti á að Vesturverk hefði talað um að leggja jarðstreng frá Hvalárvirkjun og yfir Ófeigsfjarðarheiði og að tengipunkti sem fyrirhugaður var í Ísafjarðardjúpi í jörð og spurði Magna hvaða áhrif það hefði haft á möguleika til annarra strengjalagna í raforkukerfinu. „Hvalárvirkjun, eins og hún er hugsuð, er stór eða 55 MW,“ svaraði Magni og að því hefði hún getað haft umtalsverð jákvæð áhrif á skammhlaupsaflið á Vestfjörðum. Hins vegar hefði jarðstrengurinn yfir Ófeigsfjarðarheiði dregið úr þeim ávinningi. Ef 1/3 til helmingur leiðarinnar hefði verið settur í loftlínu hefðu áhrifin virkjunarinnar á skammhlaupsaflið verið jákvæð og hægt að leggja nokkra kílómetra í jörð í kerfinu til viðbótar að mati Landsnets.
Frestun Hvalárvirkjunar um ótilgreindan tíma mun að sögn Magna ekki hafa áhrif á áætlanir Landsnets á Vestfjörðum nema þá á vinnuna við tengipunktinn sem fyrirhugaður var í Djúpinu og var á áætlun Landsnets á árinu 2022. Hann hékk saman við nýja orkuvinnslu á því svæði og var Vesturverk eini virkjunaraðilinn sem hafði óskað eftir tengingu við flutningsnetið.
Karl sagði það kost að Hvalárvirkjun væri ekki lengur veifað sem „einhverju vonartré“ í sambandi við úrbætur á raforkukerfi Vestfjarða því nú væri hægt að fara beint í aðgerðir sem kæmu að gagni. „Ég held að þessum biðtíma, þessu jó-jó tímabili, sé lokið.“