Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, staðfestir í samtali við Kjarnann að sameiginleg yfirlýsing Icelandair og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að ljúka deilum sín á milli hafi verið lögð fram á fundi miðstjórnar ASÍ í morgun.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var umtalsverður stuðningur við yfirlýsinguna innan miðstjórnar ASÍ, en þó ekki algildur. Aðdragandi hennar var sú að stjórnendur Icelandair Group settu sig í samband við ASÍ og Flugfreyjufélag Íslands í gær til að kanna sáttarflöt.
Sólveig Anna staðfestir jafnframt við Kjarnann að hún hafi verið sú eina sem greiddi atkvæði gegn yfirlýsingunni en nokkrir sátu hjá. „Öllum var afstaða mín mjög skýr sem sátu þennan fund í morgun. Ég útskýrði hana að mínu viti mjög rækilega og málefnalega. Að mínu viti er verið að nota miðstjórn Alþýðusambandsins sem einhvers konar aflátsbréfa-maskínu,“ segir hún.
Sannleikur málsins augljós
Sólveig Anna segir að sannleikur málsins sé augljós – þ.e. að bein lína sé á milli hlutafjárútboðs Icelandair og síðan þessarar atburðarásar. „Ef fólk er til í að gera eitthvað svona þá á það í það minnsta að segja hátt og skýrt að það auðvitað skilji og viti um hvað málið snýst,“ segir hún.
Hún segir verið sé að senda skýr skilaboð þess efnis að Icelandair verði ekki lengur í þeirri stöðu að þurfa að fara fyrir Félagsdóm fyrir „eitt grófasta brot sem framið hefur verið á íslenskum vinnumarkaði“.
Aldrei gott að vera með einhvers konar óvissu
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagðist í samtali við Kjarnann í dag fagna því mjög að einhver lending væri komin í málið. „Það er aldrei gott að vera með einhvers konar óvissu, hvort sem það er í formi átaka fyrir dómstólum eða eitthvað slíkt. Það gefur okkur færi á því að vinna á hreinni grunni þegar kemur að samskiptum við stórfyrirtæki annars vegar og Samtök atvinnulífsins hins vegar,“ sagði hann.
Verkalýðsforystan hefur haldið uppi harðri orðræðu gagnvart Icelandair og Samtökum atvinnulífsins en Ragnar Þór, Drífa Snædal, formaður ASÍ, og Sólveig Anna hafa öll gagnrýnt félagið og samtökin harðlega.
Ragnar Þór telur að afstaða innan verkalýðshreyfingarinnar til samkomulagsins verði ekki einhlít. „En hvað okkur hjá VR varðar þá vorum við löngu búin að taka afstöðu í þessu máli. Stjórnin sendi frá sér yfirlýsingu á sínum tíma að beina því til stjórnarmanna lífeyrissjóðs að fjárfesta ekki í Icelandair. Þegar samningar hins vegar náðust og félagið bakkaði á þeirri vegferð, þótt skaðinn hefði verið skeður, þá töldum við í stjórn VR – að þegar deiluaðilar setjast niður og skrifa undir samning og hann síðan samþykktur – ekki forsendur fyrir því að standa við yfirlýsinguna, og við drógum hana til baka.“