Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona og Eydís Blöndal varaþingmaður, sem hafa sagt sig úr Vinstri grænum, eru í hópi níu manns sem hafa skráð sig úr flokknum síðasta mánuðinn. Sex nýir félagar hafa bæst við.
Fjórir skráðu sig úr Vinstri hreyfingunni grænu framboði á nokkrum klukkutímum í gær. Í þeim hópi var Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem var þingmaður flokksins. Síðustu tvær vikur hafa átta skráð sig úr flokknum en á sama tímabili hafa þrír nýir félagar bæst við.
Frá því 28. ágúst, um það leyti sem flokksráðsfundur fór fram, hafa níu skráð sig úr flokknum en sex nýir bæst við. Samkvæmt upplýsingum frá Björg Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra VG, voru félagar í flokknum þá 5.510 síðdegis í dag.
Rósa Björk sagði nýlega atburði er varða brottvísun egypskrar fjölskyldu sem hér leitaði hælis vera ástæðu úrsagnar sinnar. Í gær skráði Eydís Blöndal, sem var varaþingmaður VG, sig úr flokknum og í viðtali við Kjarnann í dag sagðist hún oft hafa íhugað úrsögn en að mál egypsku fjölskyldunnar hefði orðið til þess að hún tók ákvörðunina í gær.
Andrés Ingi Jónsson, sem hóf kjörtímabilið sem þingmaður Vinstri grænna, sagði sig úr flokknum í lok nóvember í fyrra en situr enn á þingi sem óháður þingmaður.