Eydís Blöndal hefur sagt sig úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Eydís hefur verið varaþingmaður flokksins frá síðustu kosningum og flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í janúar.
„Ég tók þessa ákvörðun í gær,“ segir Eydís í samtali við Kjarnann, „en hún var ef til vill löngu tímabær.“ Það var málefni egypsku fjölskyldunnar sem vísa á úr landi, sem varð til þess að Eydís tók ákvörðunina. Hún segir að brottvísun fjölskyldunnar hafi gengið gegn hennar sannfæringu.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona greindi frá þeirri ákvörðun sinni í dag að hún hefði sagt skilið við VG vegna þess hvernig stjórnvöld fóru með mál egypsku flóttafjölskyldunnar.
„Hvernig getum við fæðst á Íslandi fyrir fullkomna tilviljun, og síðan leyft okkur að ákveða að annað fólk megi ekki vera hérna?“ skrifaði Eydís á Facebook í gær. „Hvernig getum við sveipað skoðanir okkar orðum eins og „frelsi“ þegar við sendum lögregluna til að fjarlægja börn og foreldra af heimilum þeirra gegn þeirra vilja? Nei, við nefnilega getum það ekki, það er óréttmætt, ógeðslegt og ómannúðlegt #ekkiíokkarnafni.“
Hún segist ekki hafa verið virk í flokksstarfinu frá því að henni bauðst að vera á lista VG fyrir síðustu Alþingiskosningar en í þeim varð hún varaþingmaður flokksins. „Mér þótti í raun erfitt að taka þátt í flokkspólitík yfir höfuð því það er svo margt í því fyrirkomulagi sem mér finnst ekki ganga almennilega upp og oft þjóna þveröfugum tilgangi þegar kemur til dæmis að lýðræði,“ segir Eydís og rifjar upp að um tvítugt hafi hún fengið þá flugu í höfuðið að skrá sig í alla starfandi stjórnmálaflokka. Það væri ef til vill besta leiðin til að hafa áhrif. „Mér fannst stefna VG samsvara mörgu því sem ég hef trú á. En á kjörtímabilinu hafa komið upp mál sem mér hafa misboðið,“ segir hún
Fljótt fór hún einnig að reka sig á ýmislegt í pólitíkinni almennt sem henni hugnaðist ekki. Henni fannst oft myndast togstreita og segir að erfitt geti reynst að koma hugsjónum sínum hreint og beint til skila. „Það síðasta sem ég vildi gera er að láta mál fjölskyldunnar snúast á einhvern hátt um mig, en ég vildi heldur ekki að nokkur manneskja velktist í vafa um það hvar ég stæði í málefnum útlendinga og sér í lagi flóttamanna og hælisleitenda. Svo á sama tíma finnst mér mikilvægt að fólk láti í sér heyra og mótmæli þegar því ofbýður.“
Eydís hefur oft velt því fyrir sér að segja sig úr flokknum en ekki látið verða af því fyrr en í gær. „Síðustu daga hef ég verið hugsi yfir ýmsu í tengslum við þetta hræðilega sorglega mál fjölskyldunnar sem er á flótta frá Egyptalandi. Ég hugsaði með mér: Hingað og ekki lengra. Því ég sá það enn einu sinni gerast sem ég hafði séð gerast svo oft áður þegar erfið mál koma upp. Þingmenn og ráðherrar fara í felur. Það er svo öfugsnúið að standa ekki með því sem þú stendur fyrir. Og ef þú vilt ekki koma þér í aðstæður sem þú getur ekki svarað fyrir þá áttu ekki að koma þér í þær aðstæður til að byrja með. Þetta er kannski barnalegt viðhorf en mér finnst þetta þurfa að vera einkenni stjórnmálafólks.“
Finna sig ekki innan flokka
Þó að Eydís hafi verið ósátt við ýmis mál sem komið hafa upp í ríkisstjórnarsamstarfinu segir hún ákvörðun sína þó einnig snúast um rót vandans sem sé stjórnmálamenningin. Margir hennar jafnaldra deili þeirri skoðun, þeir finni sig engan veginn í pólitísku starfi stjórnmálaflokkanna.
Að mati Eydísar er margt í pólitískri menningu á Íslandi sem verður til þess að hugsjónir einstaklinganna verða undir en hagsmunir flokksins ofan á. „Þetta sé ég gerast í öllum flokkum. Flokkurinn, afstaðan eða skoðunin verður hluti af sjálfsmynd einstaklingsins.. Fólk fer að verja flokkinn og hans ákvarðanir eins og það sé að verja sjálft sig – þó að það sé jafnvel ekki sammála ákvörðunum. Þessi menning finnst mér ólýðræðisleg og stangast á við hugmyndir mínar um réttlæti og í henni myndast hvati fyrir fólk að hætta að tala frá hjartanu. Og þegar blikið fer úr augunum þá á maður að hætta í pólitík.“
Eydís var í ítarlegu viðtali við Kjarnann síðasta vetur. Lesa má viðtalið hér.