Tuttugu og einn einstaklingur greindist með kórónuveirusmit innanlands í gær. Fjórtán þeirra sem greindust voru ekki í sóttkví. Undanfarna þrjá daga hafa 53 smit greinst innanlands.
Þetta kemur fram á vefnum covid.is. Alls voru rúmlega 4.000 sýni tekin á landinu í gær, þar af 1.649 í skimunum Íslenskrar erfðagreiningar sem meðal annars fóru fram í Háskóla Íslands. Þar greindist einungis eitt jákvætt sýni og í sóttkvíar- og handahófsskimunum svokölluðum greindist einn með veiruna til viðbótar.
Tæplega þúsund manns leituðu í skimun vegna einhverra einkenna og greindust sýni úr nítján þeirra jákvæð, eða um 1,9 prósent allra sýna sem tekin voru.
Hundrað og átta einstaklingar eru nú með virkt smit innanlands og tveir eru nú á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Langflestir sem eru smitaðir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, eða 88 talsins.
Alls eru 793 einstaklingar í sóttkví og 2.002 til viðbótar í skimunarsóttkví eftir að hafa komið hingað til lands undanfarna daga.
Gripið hefur verið til hertra ráðstafana á höfuðborgarsvæðinu til þess að takast á við þá hópsýkingu sem blossað hefur upp í vikunni, en í morgun tilkynntu stjórnvöld að heilbrigðisráðherra hefði fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að krám og skemmtistöðum yrði lokað í fjóra daga, frá og með deginum í dag.