„Vandinn við samgöngusáttmálann er að það er óljóst hvernig hann verður fjármagnaður,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Kjarnann. Hann segir þó löngu tímabært að ráðist sé í fjárfestingu í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins og það sé gott að það sé verið ganga til verks núna, vegna áhrifa kórónuveirunnar á atvinnulífið.
Mikilvægt sé að hið opinbera stígi sterkt fram í verklegum framkvæmdum á þessum tímum.
Fjármögnun samgöngusáttmálans er þó enn ekki að fullu útfærð, en alls stendur til að 120 milljörðum verði varið í stofnvegaframkvæmdir, Borgarlínu og uppbyggingu innviða fyrir aðra ferðamáta á næstu 15 árum.
„Sveitarfélögin hafa skuldbundið sig til að leggja fram 15 milljarða og ríkið 45, en svo er helmingurinn, 60 milljarðar, sem ekki liggur fyrir hvaðan eiga að koma. Ríkið hefur skuldbundið sig til þess að leggja það fram með einum eða öðrum hætti, sama hvort það verður með beinum hætti eða í gegnum einhverja gjaldheimtu,“ sagði Sigurður við blaðamann Kjarnans á dögunum.
Ítarlegt viðtal við Sigurð um ýmis önnur mál, þar sem hann sagði meðal annars að stjórnvöld þyrftu að hætta að velja ferðaþjónustu sem sigurvegara og gera umbætur í því skyni að auka samkeppnishæfni landsins, birtist á Kjarnanum í síðustu viku.
Sigurður segir að Samtök iðnaðarins hafi kallað eftir arðsemismati á framkvæmdunum sem eru undir í samgöngusáttmálanum, sem nýta mætti varðandi forgangsröðun á framkvæmdum. „Vonandi hefur það verið unnið þó ég hafi ekki séð það,“ segir Sigurður.
Borgin reyni að gera dýrasta kostinn að einu leiðinni varðandi Sundabraut
Spurður sérstaklega út í Sundabraut, segir Sigurður hana stóra framkvæmd sem geti breytt mjög miklu, hafi verið rætt mjög lengi og verið lengi á teikniborðinu. Opnað hefur verið á aðkomu einkaaðila að verkefninu og það telur Sigurður að gæti orðið spennandi og hagkvæm lausn, rétt eins og Hvalfjarðargöngin voru vel heppnuð framkvæmd og verkefni.
„En það sem er auðvitað óútkljáð er lega brautarinnar í Reykjavík og þar fæ ég ekki betur séð en að meirihluti borgarstjórnar sé viljandi að leggja stein í götu þessa verkefnis. Það væri mjög heiðarlegt ef þau myndu bara segja það beint út, sem þau hafa ekki treyst sér til að gera en þeirra aðgerðir miða að því að draga úr fýsileika þessa verkefnis, að þrengja að hagkvæmum kostum þannig að dýrasti kosturinn verði eina leiðin og þá er ekki víst að þetta verkefni verði fjárhagslega arðbært,“ segir Sigurður.
Hann bætir við að á meðan þessi mál séu óútkljáð verði ekkert af framkvæmdinni, en eins og Kjarninn fjallaði um nýlega er verkefnið um Sundabraut þar statt þesssa dagana að starfshópur er að störfum við að rýna fýsileika þeirra tveggja kosta sem eftir standa um tengingu innan þéttbýlis í Reykjavík, lágbrúar yfir Kleppsvík eða jarðganga frá Laugarnesi yfir í Gufunes. Fréttaskýringu um málið má lesa hér.
Spurður hvort hann telji að íslensk verktakafyrirtæki hafi bolmagn í að ráðast í framkvæmd á borð við Sundabraut segir Sigurður að hann telji það, þrátt fyrir að mögulega myndu fyrirtæki leita samstarfs við erlenda aðila um framkvæmdina.
„Ég held að íslenskir aðilar verði þarna í aðalhlutverki þó að aðrir myndu koma að. Við höfum skynjað áhuga öflugra fyrirtækja á þessu og fleiri verkefnum af sama toga, þessum samvinnuverkefnum, svo áhuginn er sannarlega til staðar,“ segir Sigurður.
Rætt var við Sigurð um ýmis önnur mál í Kjarnanum í síðustu viku og má lesa það viðtal hér.