„Ég held að á þessari stundu sé vandséð að tilefni sé til harðari aðgerða.“ Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á blaðamannafundi Almannavarna í dag. Því mun hann ekki leggja til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að harðari takmarkanir verði settar á vegna fjölgunar í kórónuveirusmitum undanfarna daga.
Þórólfur sagðist hins vegar ætla að leggja fram við ráðherrann að krár og skemmtistaðir verði áfram lokaðir til 27. september, eða fram yfir næstu helgi, en tilmælum um að halda þeim lokuðum, vegna fjölda smita sem áttu upptök sín á öldurhúsum höfuðborgarinnar, var komið til heilbrigðisráðherra í síðustu viku.
Alls voru rúmlega 2.395 sýni tekin í landinu í gær, sem er mun færri en í fyrradag þegar þau voru 3.600.
55 prósent þeirra sem voru greindir sýktir í gær voru í sóttkví við greiningu.
Sóttvarnarlæknir sagði ánægjulegt að sjá þessa fækkun á jákvæðum sýnum milli daga, en vildi þó túlka lækkunina með varúð. Það væri jákvætt að það væri ekki að eiga sér stað áframhaldandi veldisvöxt en það ætti ekki að lesa of mikið í þróun milli einstakra daga.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði á fundinum að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að lýsa yfir neyðarstigi þótt það hafi verið rætt. Hún hvatti alla sem geta að vinna heima á næstunni og greindi frá því að í þessari þriðju bylgju sem nú stendur yfir hafi heimilisofbeldi aukist.