Þrjátíu ný tilfelli af COVID-19 greindust hér á landi í gær. Allir þeir sem greindust höfðu farið í sýnatöku vegna einkenna. Í gær voru tekin 2.395 sýni vegna kórónuveirunnar, þar af 1.077 einkennasýni. Þetta eru töluvert færri sýni en tekin voru á föstudag og sunnudag en þó fleiri en dagana þar á undan.
Rétt rúmlega helmingur þeirra sem greindist í gær var í sóttkví við greiningu.
Á vefnum covid.is kemur fram að 242 eru nú í einangrun með COVID-19 og rúmlega 2.100 í sóttkví. Þar kemur einnig fram að nýgengi smita sé orðið 59,7 en þar er átt við fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa.
Á sex dögum hafa því 196 smit verið greind en þau eru mörg hver rakin til nokkurra öldurhúsa í miðborg Reykjavíkur. Um helgina voru vínveitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu lokaðir til að reyna að hægja á útbreiðslu faraldursins.