Rússnesk-ísraelski auðmaðurinn Roman Abramovich, sem helst er þekktur fyrir að vera eigandi enska knattspyrnuliðsins Chelsea, hefur verið helsti styrktaraðili félagasamtaka að nafni Elad, sem hafa stuðlað að því að auka ítök og búsetu ísraelskra landnema í hverfi Palestínumanna í Austur-Jerúsalem.
Fjallað er um þetta bæði í fréttaskýringarþætti frá BBC og í ísraelska miðlinum Haaretz, en Abramovich er sagður hafa styrkt Elad um yfir 100 milljónir bandaríkjadala á árunum 2005 til 2018 í gegnum fjögur félög sem skráð eru á Bresku Jómfrúareyjunum í Karíbahafinu.
Ísraelsku félagasamtökin, sem eru einnig styrkt af ríkisstjórn Ísraels, hafa forræði yfir fornleifasvæði í Silwan-hverfinu í Austur-Jerúsalem, sem liggur skammt utan við gömlu borgina í Jerúsalem.
Þau hafa nýtt sér umdeildar lagaheimildir Ísraelsstjórnar til þess að þrengja að búsetu palestínskra fjölskylda í hverfinu. BBC segist hafa heimildir fyrir því að samtökin hafi fjármagnað málsóknir gegn palestínskum fjölskyldum sem berjast gegn því að vera neydd til að flytja úr húsum sínum í hverfinu.
Samtökin hafa legið undir ámæli fyrir að nýta sér fornleifauppgröftinn og sögulegar skírskotanir til þess að breyta ásýnd hverfisins og opna á búsetu gyðinga þar í landnemabyggðum. Evrópusambandið gagnrýndi þetta sérstaklega í skýrslu sem Guardian kom höndum yfir fyrir um tveimur árum síðan.
Samkvæmt alþjóðalögum eru landnemabyggðir á öllum hernumdum svæðum Palestínumanna ólögmætar, þar með talið í Austur-Jerúsalem. Ísraelsríki segir þó alla Austur-Jerúsalem tilheyra sér, en afar fá ríki viðurkenna það.
Styrkir rússneska auðjöfursins, sem fékk ísraelskan ríkisborgararétt árið 2018, komu í ljós við yfirferð fjölmiðla á FinCEN-skjölunum svonefndu, en fram að því hafði eignarhald Abramovich á félögunum fjórum ekki verið á almannavitorði.
Talsmaður Abramovich sagði við BBC að rússneski auðmaðurinn hefði um árabil styrkt ýmis verkefni í Ísrael og öðrum samfélögum gyðinga með alls yfir 500 milljóna dollara framlögum og myndi halda því áfram.
Kom í ljós vegna gagnaleka
Eins og Kjarninn sagði frá í gær eru FinCEN-skjölin gagnaleki frá löggæslu- og eftirlitsstofnun innan bandaríska fjármálaráðuneytisins, The Financial Crimes Enforcement Network.
Blaðamenn frá yfir hundrað fjölmiðlum hafa unnið með gögnin í meira en ár og hófu á sunnudag að svipta hulunni af því hversu gríðarlega mikið fé með óljósan og oft vafasaman uppruna er millifært með hjálp stærstu banka Vesturlanda. Einnig, hve eftirlitskerfi bandarískra stjórnvalda vegna millifærslna í bandaríkjadölum (sem þau eiga að fylgjast með) er óskilvirkt. Stærstu bankar Vesturlanda eru einfaldlega sagðir horfa í hina áttina þegar þeir eru beðnir um að annast slíkar millifærslur. Þeir stöðva sjaldnast vafasömu greiðslurnar, þrátt fyrir að hafa til þess heimild, heldur þiggja þóknanatekjurnar.
Regluverðir bankanna senda svo inn tilkynningar eftir á ef þeir reka augun í eitthvað misjafnt. Og það er oft. Tilkynningarnar enda ásamt milljónum annarra slíkra hjá eftirlitsstofnuninni bandarísku, sem virðist lítinn tíma hafa til að rýna í þær. En það hafa blaðamenn um allan heim verið að gera, eftir að BuzzFeed News, sem upphaflega fékk gögnin, deildi þeim með ICIJ, alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna, snemma í fyrra.
Fótboltamenn í hlutaeigu aflandsfélags
Fréttir um styrkveitingar til landnemasamtakanna í Austur-Jerúsalem eru ekki þær einu um Roman Abramovich sem hafa birst í því fréttaflóði sem unnið hefur verið upp úr gagnalekanum, en einnig hefur ljósi verið varpað á leynilegt eignarhald hans á knattspyrnumönnum í gegnum félag á Bresku Jómfrúareyjunum sem heitir Leiston Holdings.
Fjallað var um þetta á BBC í gær. Þar var meðal annars dregið fram að knattspyrnumaðurinn Andre Carrillo hefði spilað með portúgalska liðinu Sporting Lissabon gegn Chelsea í tveimur evrópuleikjum árið 2014, er leikmaðurinn var í hlutaeigu prósent eigu aflandsfélagsins, sem hjálpaði Sporting Lissabon að fjármagna kaupin á honum.
Abramovich „átti“ því í raun hlut í 12 leikmönnum á vellinum, í þessum leikjum Sporting og Chelsea árið 2014.
Leiston Holdings átti á árum áður hlut í fleiri fótboltamönnum, meðal annarra sebneska sóknarmanninum Lazar Markovic, sem keyptur var til Liverpool frá Benfica árið 2014. Hluti kaupverðsins á þeim tíma rann til Leiston Holdings, eins og áður hefur verið opinberað, meðal annars í ítarlegri úttekt Der Spiegel á alls konar fjármálagjörningum í heimi fótboltans árið 2018. Tengsl Abramovich við félagið hafa þó ekki legið fyrir.
Árið 2015 breytti Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA reglum sínum til þess að koma í veg fyrir að þriðju aðilar færu með eignarhald leikmanna, en slíkt var frekar algengt. Á það lagði talskona Abramovich áherslu í svörum við fyrirspurn BBC vegna málsins.