Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir gagnrýni Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða og varaformanns stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, á það að að LIVE hafi ekki tekið þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group, með „miklum ólíkindum“.
Í færslu sem hann birtir á Facebook lýsir Ragnar yfir vantrausti á Guðrúnu, bæði sem stjórnarmann í LIVE og sem formann Landssamtaka lífeyrissjóða, og skorar á Fjármálaeftirlitið um að taka nýleg ummæli hennar „til skoðunar og meta hana óhæfa til að taka ákvarðanir um fjárfestingar fyrir hönd sjóðfélaga LIVE.“
Ragnar Þór vísar til viðtals við Guðrúnu á Vísi 18. september og segir að þar hafi hún lýst sjónarmiðum sem Fjármálaeftirlitið hljóti að gera athugasemdir við, en í viðtalinu sagðist Guðrún harma að LIVE hefði ekki tekið þátt í útboðinu.
„Eignir Lífeyrissjóðs verslunarmanna núna eru í kringum 950 milljarðar. Þannig að þetta hefði þá verið 0,2 prósent af eignasafni sjóðsins sem við hefðum þá lagt til í þessu útboði,“ er haft eftir Guðrúnu á Vísi.
Ragnar Þór gerir athugasemdir við þetta og segir að í „ljósi stöðu sinnar og fyrri yfirlýsinga“ hljóti Fjármálaeftirlitið að „komast að þeirri niðurstöðu að Guðrún Hafsteinsdóttir sé vanhæf til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs með því að réttlæta fjárfestingu í Icelandair vegna þess hversu lítið hlutfall hún er af heildareignum.“
Ragnar segir Guðrúnu einnig hafa gefið í skyn, með því að tala um að LIVE hefði stutt við Icelandair í 40 ár, að „fagleg sjónarmið ríki ekki heldur „stuðningur“ við mikilvægt fyrirtæki í atvinnulífinu“ og hún hafi lýst þeirri skoðun sinni að „vegna „sögulegra“ sjónarmiða um ávöxtun“ væri rétt að taka þátt og einnig væri mikilvægt að fjárfesta í Icelandair til að verja störf.
„Guðrún hefur áður lýst því yfir að það sé lögboðin skylda stjórnarmanna að hámarka arðsemi fjárfestinga eingöngu,“ segir Ragnar Þór og bætir við:
„Ekkert að ofansögðu stenst nokkra skoðun, samþykktir sjóðsins, fjárfestingarstefnu hans eða lög sem gilda um fjárfestingar lífeyrissjóða. Þess vegna skora ég á fjármálaeftirlitið að taka ummæli Guðrúnar Hafsteinsdóttur til skoðunar og meta hana óhæfa til að taka ákvarðanir um fjárfestingar fyrir hönd sjóðfélaga LIVE.“
Stjórn VR í „fullum rétti“ með yfirlýsingum í sumar
Hann sakar Guðrúnu um að hafa farið fram með ásakanir og dylgjur gagnvart sér og fulltrúum VR í stjórn lífeyrissjóðsins. Hann segir að stjórn VR hafi verið í fullum rétti í sumar, þegar stjórnin skoraði á stjórn LIVE um að taka ekki þátt í útboði Icelandair Group, vegna framkomu flugfélagsins í kjaradeilu við Flugfreyjufélag Íslands.„Staðreyndin er sú að það stríðir gegn samþykktum sjóðsins að fjárfesta í fyrirtækjum sem brjóta á réttindum launafólks. Það er alveg skýrt og varla nokkur sem andmælir því. Þannig vorum við í fullum rétti til að beina þeim tilmælum til stjórnarmanna sjóðsins um að brjóta ekki gegn samþykktum sjóðsins,“ skrifar Ragnar Þór, en þessi áskorun var dregin til baka þegar samningar náðust á milli Icelandair og flugfreyja.
„Ekki nóg með það lýstum við yfir fullu trausti til starfsmanna og stjórnarmanna LIVE. Það traust er til staðar hver sem niðurstaðan hefði orðið. Hvorki formaður eða stjórn VR höfðu nokkuð um það að segja hver niðurstaðan yrði,“ skrifar Ragnar Þór.
Fullyrðir að Fréttablaðið sé í herferð gegn honum og stjórnarmönnum VR í LIVE
Ragnar Þór segir að viðbrögðin frá „valdablokk atvinnulífsins“ við ákvörðun stjórnar LIVE um að taka ekki þátt í útboði Icelandair hafi verið ofsafengin og séu „lýsandi og afhjúpandi um það ástand og vinnubrögð sem þrifist hafa áratugum saman innan lífeyrissjóðakerfisins þar sem atvinnulífið hefur gengið um á skítugum skónum og fara nú á taugum yfir því að loksins, já loksins sé armur verkalýðshreyfingarinnar að skipa inn nægilega hæfa einstaklinga til að meta hverja fjárfestingu út frá faglegum forsendum en ekki frændhygli, pólitík, sérhagsmuna eða tilfinninga.“
Hann segist hafa fengið ábendingu fyrir nokkrum dögum um að Fréttablaðið „ætlaði í herferð“ gegn sér og stjórnarmönnum VR hjá LIVE. „Þetta fékk ég eftir nokkuð áræðanlegum heimildum svo ekki sé meira sagt,“ segir Ragnar Þór, sem telur þetta hafa komið á daginn og segir „Fréttablaðið nú uppfullt af dylgjum í minn garð og þeirra sem sitja fyrir okkar hönd í stjórn LIVE.“
Hann segist hafa verið „við öllu búinn í þeim efnum því einn aðaleigandi Fréttablaðsins, Helgi Magnússon fjárfestir, á sér einmitt langa og litríka sögu innan lífeyrissjóðakerfisins, sem fjárfestir, stjórnarmaður og formaður stjórnar LIVE og Samtaka iðnaðarins eða alveg þangað til að bakland sjóðsins fékk nóg og bolaði honum út.“
Þurfi að „aftengja atvinnulífið frá stjórnum lífeyrissjóða“
Ragnar Þór segir að þetta mál undirstriki „mikilvægi þess að aftengja atvinnulífið frá stjórnum lífeyrissjóða“ og að vinna verði að hefjast við það að „ákvörðunarvaldið við stórar fjárfestingar og skipun í stjórnir sjóðanna verði alfarið í höndum sjóðfélaganna sjálfra.“
„Atvinnulífið og aðrir talsmenn sérhagsmuna sem hafa litið á eftirlaunasjóði almennings sem fé án hirðis ganga nú vasklega fram í að krefja eftirlitsaðila og löggjafann um að taka til skoðunar "skoðanir" þeirra sem voru á móti því að fjárfesta í einum áhættumesta atvinnurekstri sem um getur. Á meðan skoðanir þeirra sem vildu taka þátt eru góðar og gildar og þarfnast ekki frekari skoðunar af hálfu eftirlitsaðila,“ skrifar Ragnar Þór, sem klykkir út með því að biðja lesendur um að deila færslu sinni, vilji þeir „Samtök atvinnulífsins úr stjórnum lífeyrissjóðanna.“
Um leið og ég fagna því að Icelandair sé komið fyrir vind óska ég starfsfólki og stjórnendum félagsins innilega til...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Wednesday, September 23, 2020