Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að skortur hafi verið á samtali milli SA og verkalýðshreyfingarinnar um forsendur Lífskjarasamnings og ýmis útfærsluatriði. Þetta kom fram í máli Halldórs í Silfrinu í morgun en þar ræddi hann fyrst og fremst um samninginn. SA hefur haldið því fram í vikunni að forsendur samningsins séu brostnar en verkalýðshreyfingin segir forsendur halda.
Í þættinum sagði Halldór að hann hefði lagt til ýmsar lausnir sem gætu tryggt að samningurinn standi, í því efnahagsástandi sem nú er uppi. Meðal hugmynda hans og SA er að fresta launahækkunum en efna kjarasamninginn að öðru leyti að fullu. Þá hafi SA lagt til að dregið yrði tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda inn í lífeyrissjóð. Þar að auki væri hægt að bíða og sjá hvernig efnahagshorfurnar væru eftir tvo mánuði eða svo. Hann sagði ekkert samtal hafa átt sér stað um hugmyndirnar og þeim einfaldlega hafnað.
Útfærsluatriðin kalli á samtal
„Ég er til í að skoða allar útfærslur. Vandamálið er að mótaðilinn segir: „Við ætlum ekki að ræða þetta við þig.“ Þetta eru atriði sem þurfa að þroskast í einhvers konar samtali. Þegar mótaðilinn okkar hafnar því að eiga samtalið þá erum við í dálitlum vanda,“ sagði Halldór í þættinum.
Hann sagði að það hefði verið forgangsmál á síðastliðnum 20 árum, bæði hjá SA og verkalýðshreyfingunni, að viðhalda litlu atvinnuleysi jafnvel þó það þýddi að draga hafi þurft úr launahækkunum. „Nú er búið að snúa þessu við og verkalýðshreyfingin vill tryggja launahækkanir þeirra sem hafa vinnu jafnvel þó það séu 20 þúsund manns sem ekki hafa vinnu,“ sagði Halldór.
Atkvæðagreiðsla innan SA hefst á morgun
Á morgun hefst atkvæðagreiðsla hjá fyrirtækjum innan vébanda SA um afstöðu þeirra til uppsagnar kjarasamninga. Í beinu framhaldi mun framkvæmdastjórn SA taka ákvörðun um hvert framhaldið verður.
„Minn fyrsti kostur er alltaf sá að semja um niðurstöðu og ég tel að við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til þess. En ég held að Bubbi Morthens orði þetta best; Baráttan, Fanney, hún er vonlaus þegar miðin eru dauð,“ voru lokaorð Halldórs í þættinum.