Í gær greindust 39 einstaklingar með COVID-19 hér á landi. Það er nokkur aukning frá því í fyrradag sem skýrist þó mögulega af því að færri sýni voru tekin í gær en dagana á undan.
Frá 15. september hafa 446 greinst með COVID-19 hér á landi. Talsverð sveifla er á milli daga sem að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis skýrist að einhverju leyti í sveiflu í fjölda sýna sem tekin eru frá degi til dags.
Langflestir þeir sem greindust í gær, þar á meðal fjórtán manna áhöfn línubáts, var í sóttkví við greiningu. Þar sem línubáturinn var úti á sjó er hópsmit kom upp um borð er að sögn Þórólfs litið svo á að áhöfnin hafi verið í sóttkví.
Sóttvarnalæknir sagði þar sem meirihluti fólks sem væri að greinast væri í sóttkví við greiningu væri samfélagslegt smit ekki útbreitt. Það væri ánægjulegt og „sennilega erum við á réttri leið en ekki má mikið út af bregða svo að hópsýkingar komi upp,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi dagsins.
Fimm liggja á sjúkrahúsi vegna COVID-19, þar af einn á gjörgæsludeild.
Fimm prósent þeirra sem fara í sóttkví hafa greinst með sýkingu síðar og á næstunni munum við því fara að greina töluverðan fjölda sem nú er í sóttkví með sýkinguna, sagði Þórólfur. Undir það þurfum við að vera búin. „Samfélagssmitin eru að ganga hægt niður og það er ánægjulegt.“
Hins vegar væri fjölgun í innlögnum á sjúkrahús áhyggjuefni þó að það væri óviðbúið. Toppnum í veikindum verður mögulega náð á næstu dögum, sagði hann um þann hóp sem nú hefur sýkst þar sem einkenni koma oftast fram í annarri viku frá greiningu.
Þórólfur sagði að ennþá væri mjög brýnt að allir viðhafi ítarlegar sýkingavarnir og sagði enn fremur líklegt að viðhafa þurfi varúðarráðstafanir næstu mánuðina. Hann sagðist hins vegar ekki telja ástæðu til að grípa til hertra aðgerða innanlands núna en ítrekaði að það væri þó í sífelldri endurskoðun. „Við megum ekki slaka á,“ sagði hann, „þetta er alls ekki búið.“
Brýnt væri að nýta á þekkingu sem við hefðum fengið í faraldrinum í vetur. Það hefði hann m.a. gert hvað varðar aðgerðir sem gripið er til. Nú eru álíka margir í einangrun vegna COVID og voru um 20. mars en þá voru aðgerðir mun harðari en nú.
Tíu dagar frá síðustu aðgerðum
Staðan er núna sú að samfélagssmitum sé að fækka en að búast megi við fleiri smitum meðal þeirra sem eru í sóttkví á næstunni. Sagði hann skynsamlegt að beita aðgerðum hóflega svo að samfélagsskaðinn verði sem minnstur. En ef á þurfi að halda verði aðgerðir hertar á ný. „Núna erum við komin tíu daga frá síðustu aðgerðum hér og við sjáum góðan árangur núna. Þá er tilefni til að bíða með harðari aðgerðir.“
Hvað aðgerðir við landamærin varðar sagði Þórólfur það sitt mat, út frá sóttvarnasjónarmiðum, að halda ætti áfram þeim aðgerðum sem eru í gildi núna; tvöfaldri skimun með sóttkví á milli. Faraldurinn væri að breiðast hratt út í mörgum löndum í kringum okkur og nú væri farið að grípa til harðari aðgerða við landamæri ýmissa landa en gert er hér.
Hann benti hins vegar á að það væri stjórnvalda að ákveða hvernig fyrirkomulagið verður.