Pål Lønseth, æðsti yfirmaður norsku efnahagsbrotadeildarinnar Økokrim, hefur lýst sig vanhæfan til þess að fjalla um mál norska bankans DNB sem hefur verið til rannsóknar hjá embættinu frá því að Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í nóvember síðastliðnum. Málið verður fært til annars saksóknaraembættis.
Þetta kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins NRK, sem vísar til bréfs frá Heidi Reinholdt-Østbye, ríkislögmanni Noregs. Fram kemur í fréttinni að Lønseth lýsi sig vanhæfan til að fara með málið vegna fyrri starfa sinna í lögmennsku, en hann var ráðinn sem yfirmaður Økokrim í sumar. Á árum áður starfaði hann meðal annars sem rannsakandi hjá PwC í Noregi.
Ríkissaksóknari Noregs mun færa málið til annars embættis, en þetta er samkvæmt frétt NRK í þriðja sinn sem Lønseth lýsir sig vanhæfan til að fara með mál síðan hann tók við embætti sínu. Ekki hefur enn verið ákveðið hvaða embætti tekur mál DNB að sér, en það mun liggja fyrir fljótlega, samkvæmt svörum Reinholdt-Østbye til NRK.
Lønseth hafði samkvæmt frétt NRK áður lýst því yfir að hann hefði ekki skoðað gögn DNB-málsins, sem hófst sem áður segir eftir umfjöllun um málefni Samherja.
Rauð ljós kviknuðu og bankinn brást seint við
Sagt var frá því í Kveik, Stundinni og reyndar einnig hjá norska ríkisfjölmiðlinum í nóvember í fyrra að árið 2017 hefðu komið upp rauð ljós við áhættumat innanhúss hjá DNB varðandi viðskiptavininn JPC Shipmanagament, kýpverskt móðurfélag félags á Marshall-eyjum sem hét Cape Cod.
DNB, sem er í hlutaeigu norska ríkisins, greip hins vegar ekki til aðgerða í samræmi við varnir gegn peningaþvætti fyrr en ári seinna, eða árið 2018.
Kveikur greindi líka frá því að fjármunir frá dótturfélagi Samherja á Kýpur, sem einnig var með reikninga í norska bankanum, hefðu runnið inn á reikninga í eigu Cape Cod. Sömuleiðis hefði fé runnið frá Cape Cod og inn á reikninga Samherjafélaga.
Síðar hefði DNB lokað reikningum Cape Cod í bankanum, vegna óvissu um hver raunverulegur eigandi Cape Cod væri. Sagt var frá því að bankinn sjálfur hefði talið að Cape Cod væri í eigu Samherja, en Samherji hefur andmælt fréttaflutningi af málinu.
Norski bankinn sleit viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok síðasta árs, án útskýringa. Ekki hefur komið fram opinberlega af hverju sú ákvörðun var tekin innan bankans.