Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins ákvað á fundi sínum í dag að hætta við atkvæðagreiðslu um hvort að segja ætti upp kjarasamningum, en slík atkvæðagreiðsla átti að hefjast á hádegi. Því mun Lífskjarasamningurinn, sem gerður var til þriggja ára í apríl í fyrra, gilda áfram en segja þurfti honum upp fyrir lok dags á morgun. Það höfðu Samtök atvinnlífsins lýst yfir vilja til að gera í ljósi þess að þau töldu forsendur hans ekki lengur halda.
Ríkisstjórn Íslands kynnti í morgun átta aðgerðir, sem hún telur að muni kosta skattgreiðendur 25 milljarða króna, til að höggva á þann hnút sem er á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að Samtök atvinnulífsins myndu segja upp kjarasamningum.
Helstu aðgerðir eru þær að tryggingagjald verður lækkað tímabundið í eitt ár, til loka árs 2021, um 0,25 prósent og er kostnaður ríkissjóðs við þetta metin á fjóra milljarða króna.
Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að framkvæmdastjórn þeirra hafi lagt mat á aðgerðarpakka stjórnvalda og það mat hafi skilað ofangreindri niðurstöðu: kjarasamningum verði ekki sagt upp. Aðgerðir stjórnvalda komi til með að milda kostnað fyrirtækja á almennum vinnumarkaði vegna launahækkanna sem taka gildi 1. janúar næstkomandi, og Samtök atvinnulífsins telja að muni kosta fyrirtækin í landinu 40 til 45 milljarða króna á ársgrundvelli.
Þar segir þó að eftir sem áður muni launahækkanirnar veikja stöðu atvinnulífsins og mörg fyrirtæki þurfi að bregðast við þeim kostnaði. „Framkvæmdastjórn SA telur sættir á vinnumarkaði mikilvægar og vill stuðla að þeim. Þær verða þó ekki keyptar á hvaða verði sem er. Verkalýðsforystan hefur því miður ekki verið tilbúin til viðræðna um aðgerðir til að bregðast við forsendubresti í atvinnulífinu.“
Verkalýðshreyfingin gagnrýndi aðgerðapakka harðlega
Verkalýðshreyfingin hefur ekki tekið aðgerðapakka stjórnvalda jafn fagnandi og Samtök atvinnulífsins. Alþýðusamband Íslands fór um hádegisbil í dag fram á að stjórnvöld gefi vilyrði um að hækka grunnatvinnuleysisbætur, sem nú eru 289.510 krónur, og þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta samhliða þeim aðgerðarpakka sem þau kynntu í morgun fyrir atvinnulífið. Sambandið mótmælti einnig lækkun tryggingagjalds þar sem það standi undir mikilvægum innviðum á borð við fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingum, auk þess sem það hafi þegar lækkað um 0,5 prósent á síðustu tveimur árum og sé „nánast eini skatturinn sem fyrirtæki greiða“.
Efling sendi einnig frá sér tilkynningu í hádeginu vegna aðgerðarpakka stjórnvalda. Þar sagði að þær aðgerðir sem hönd sé á festandi í yfirlýsingu stjórnvalda styðji eingöngu „atvinnurekendur og efnafólk, láta undan óeðlilegum þrýstingi þeirra og hlunnfara vinnandi fólk.“