Olíufyrirtækið Royal Dutch Shell tilkynnti í dag að fyrirtækið ætlaði að segja upp 7-9 þúsund starfsmönnum sínum á næstu tveimur árum og beina sjónum sínum í auknum mæli til umhverfisvænni orkuframleiðslu. Meðal nýrra verkefna fyrirtækisins er föngun og förgun kolefnis í Noregshafi.
Ben van Beurden, framkvæmdastjóri olíufyrirtækisins, sagði frá fyrirhuguðum uppsögnum í viðtali sem birtist á forsíðu Shell í dag. Samkvæmt því eru uppsagnirnar liður í endurskipulagningu innan félagsins, sem vill stefna að minni losun kolefnis í framtíðinni. Van Beurden segir fyrirtækið hafa val um að framleiða olíu og jarðefnaeldsneyti með sem minnstum útblæstri eða stefna sjálft að því að verða kolefnishlutlaust. „Við höfum ákveðið að fara seinni og stærri leiðina,” segir Van Beuren í viðtalinu.
Samkvæmt frétt Reuters um málið störfuðu um 83 þúsund manns hjá Shell um síðustu áramót, en van Beurden telur að endurskipulagning fyrirtækisins muni spara rúma tvo milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar 278 milljörðum íslenskra króna.
Einn helsti keppinautur Shell, British Petroleum (BP), tilkynnti einnig nýlega að fyrirtækið hygðist leggja meiri áherslu á framleiðslu grænna orkugjafa í framtíðinni og segja upp um tíu þúsund starfsmanna sinna í leiðinni.
Fréttastofan Reuters telur að samkeppni um græna orkugjafa muni aukast á næstunni, samhliða hruni í eftirspurn eftir olíu á síðustu mánuðum. Á síðustu þremur ársfjórðungum hefur sala Shell, sem er stærsti olíusmásali í heimi, fallið um um það bil þriðjung.
Kolefnisföngun í Noregshafi
Hluti af nýrri starfsemi Shell fer í föngun og förgun kolefnis í Noregshafi. Búist er við að verkefnið, sem kallað er Northern Lights, muni hefjast árið 2024 og geyma allt að einni og hálfri milljón tonna af kolefni á ári hverju. Geymslugetan leyfir þó geymslu allt að fimm milljón tonna af kolefni á hverju ári ef eftirspurnin er nógu mikil.
Samkvæmt tilkynningu frá Shell hyggst olíufyrirtækið bjóðast til þess að fanga og farga kolefnisútblæstri hjá iðnaðarfyrirtækjum um alla Evrópu. Olíuframleiðandinn segir einnig að ýmis stórfyrirtæki hafi skrifað undir viljayfirlýsingu um að útblástur þeirra yrði fargaður með Northern Lights verkefninu.