Opinbera hlutafélagið Isavia fann verulega fyrir áhrifum kórónuveirufaraldursins á fyrri helmingi ársins. Heildarafkoma fyrstu sex mánaða ársins var neikvæð um 7,6 milljarða króna, samanborið við neikvæða afkomu um 2,5 milljarða króna fyrir sama tímabil í fyrra.
Inn í afkomu á fyrri árshluta var niðurfærsla upp á um 1,9 milljarða króna vegna falls WOW air. Þar var um að ræða fjármuni sem ekki fengust frá erlendum flugvélaleigusala hins fallna flugfélags eins og Isavia vonaðist eftir.
Rekstrarafkoma samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á fyrri helmingi ársins var neikvæð um 5,3 milljarða króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 942 milljónir á fyrri árshelmingi 2019.
Samkvæmt tilkynningu frá Isavia nam samdráttur í tekjum frá sama tímabili í fyrra um 9,6 milljörðum króna eða um 53 prósentum. Ef horft er eingöngu til annars ársfjórðungs drógust tekjur saman um 77 prósent fyrir samstæðu Isavia í heild, en um heil 97 prósent ef horft er til reksturs móðurfélagsins sem sinnir rekstri Keflavíkurflugvallar.
Rekstrarkostnaður félagsins hefur minnkað um 12,4 prósent á milli ára, se mfélagið segir að megi að mestu rekja til aðgerða sem gripið var til eftir að WOW air féll og einnig vegna áhrifa af kyrrsetningu Boeing 737-MAX véla Icelandair.
Samkvæmt árshlutareikningi samstæðunnar nam eigið fé Isavia rúmum 32,8 milljörðum króna 30. júní og dróst saman um á fjórða milljarð frá áramótum. Íslenska ríkið, eigandi Isavia, steig inn með tæpa fjóra milljarða í nýtt hlutafé á tímabilinu.
Skuldir Isavia námu í heild 53,3 milljörðum króna í lok júní, en voru tæpir 44,2 milljarðar í upphafi árs.
Flugumferð fari jafnvel ekki af stað fyrr en í lok vetrar
„Áhrif kórónuveirunnar á rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hafa verið veruleg og ber afkoman hjá samstæðu Isavia þess merki,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni forstjóri Isavia í tilkynningu.
„Við höfum gripið til umfangsmikilla aðgerða til að mæta þessum áhrifum og höfum m.a. því miður neyðst til þess að segja upp fjölda starfsmanna hjá móðurfélaginu og í Fríhöfninni ásamt því að skerða starfshlutföll starfsmanna hjá samstæðunni. Við búum okkur undir að flugumferð fari jafnvel ekki af stað á ný fyrr en í lok fyrsta ársfjórðungs næsta árs. Þannig lítur þetta út í dag.
Afkomuspá okkar gerir nú ráð fyrir að heildarafkoma samstæðu Isavia verði neikvæð um 13-14 milljarða króna á árinu 2020 og að áhrif kórónuveirunnar geti því numið um 15-16 milljörðum króna á heildarafkomuna. Aftur á móti er sjóðstaða félagsins sterk og við ráðum við að vera tekjulaus á Keflavíkurflugvelli fram á næsta vor án þess að sækja viðbótar fjármögnun. Við gerum þó ráð fyrir í okkar áætlunum að sækja nýtt fjármagn inn í félagið til að geta viðhaldið okkar umsvifum til næstu ára,“ segir forstjórinn einnig, í tilkynningu félagsins.