Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa komist að samkomulagi um meirihlutasamstarf í Múlaþingi, nýju sveitarfélagi á Austurlandi. Oddvitar flokkanna munu undirrita og kynna málefnasamning á rafrænum fundi klukkan 14:30 í dag.
Viðræður á milli flokkanna tveggja hafa staðið yfir frá því 22. september, en kosið var til sveitarstjórnar í nýja sveitarfélaginu 19. september. Sjálfstæðisflokkur fékk mest fylgi í kosningunum, tæp 29 prósent atkvæða og fjóra fulltrúa í ellefu manna bæjarstjórn, en Framsóknarflokkurinn fékk tæp 19 prósent og tvo fulltrúa í bæjarstjórn. Saman eru flokkarnir því með eins manns meirihluta og um 48 prósent atkvæða á bak við sig.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði tvo valkosti til myndunar tveggja flokka meirihluta í sveitarfélaginu, að ræða við Framsókn eða Austurlistann, framboð félagshyggjufólks í nýja sveitarfélaginu, sem fékk tæp 27 prósent atkvæða og þrjá fulltrúa í bæjarstjórn.
Framboð Vinstri grænna og Miðflokksins náðu svo hvort um sig einum fulltrúa inn í bæjarstjórn, með rúm 13 og tæp 11 prósent atkvæða. Miðflokksmenn hafa sagt að Klausturmálið hafi spillt fyrir sér í kosningabaráttunni, eins og Kjarninn sagði frá í gær.
Kynjahlutföll innan meirihlutans gagnrýnd
Nokkur kergja hefur verið í herbúðum Austurlistans vegna þeirrar ákvörðunar sjálfstæðismanna að ganga til viðræðna við Framsóknarflokkinn.
Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans sagði í samtali við Austurfrétt eftir að sú ákvörðun lá fyrir að verið væri að sniðganga vilja kjósenda með því að tvö stærstu framboðin ræddu ekki saman og gagnrýndi einnig að einungis ein kona yrði í meirihluta sveitarstjórnar ef raunin yrði sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn mynduðu meirihluta.
Fréttir af samstjórn allra flokka á Akureyri urðu einnig til þess að Austurlistinn viðraði þá hugmynd að sama fyrirkomulag yrði tekið upp í sveitarfélaginu, en það náði ekki upp á pallborðið.
Sveitarfélagið Múlaþing varð til með sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar og mun ný sveitarstjórn sitja fram til vorsins 2022, er nýja sveitarfélagið dettur inn í hinn hefðbundna kosningatakt sveitarstjórnarstigsins.
Enn á eftir að staðfesta að Múlaþing verði formlega nafn sveitarfélagsins, en það nafn varð hlutskarpast í ráðgefandi íbúakosningu í sveitarfélaginu sem fram fór meðfram forsetakosningunum í sumar.