Stoðir, einn umsvifamesti einkafjárfestir á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag, tapaði 477 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2020. Á sama tímabili í fyrra hagnaðist félagið um rúma tvo milljarða króna. Tapið má rekja til breytinga á virði fjárfestingaeigna sem lækkuðu um 694 milljónir króna á tímabilinu. Gengishagnaður upp á 318 milljónir króna vóg upp það tak.
Eignir Stoða voru metnar á 24,7 milljarða króna í lok júní síðastliðins og höfðu rýrnað um tæpan hálfan milljarð króna frá áramótum. Eignir Stoða skiptast að uppistöðu í fjárfestingar upp á 19,3 milljarða króna, reiðufé upp á 3,3 milljarða króna og veitt lán upp á rúma tvo milljarða króna.
Félagið skuldar hins vegar nánast ekkert og eigið fé þess því jafnt eignunum, eða 24,7 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi Stoða sem birtur var nýverið.
Grunnurinn var Refresco
Þótt fyrirferð Stoða á íslenskum fjárfestingamarkaði hafi aukist verulega á síðustu árum þá á félagið sér langa sögu. Það hét áður FL Group og var meðal annars stærsti eigandi Glitnis banka fyrir hrun.
Þá áttu Stoðir einungis eina eign af viti sem átti eftir að vinna úr, hlut í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Sá hlutur var seldur í mars 2018 eftir yfirtökutilboð og eftir sátu um 18 milljarðar króna í Stoðum. Þeir fjármunir hafa verið notaðir í fjárfestingar á undanförnum misserum.
Gömul tengsl
Stærstu hluthafar Stoða eru S121 ehf. (64,6 prósent), Landsbankinn (12,1 prósent) og sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðstýringafyrirtækis Arion banka (10,12 prósent).
Stærstu endanlegu eigendur S121 hafa margir tengsl við gamla FL Group, annað hvort störfuðu þar eða sátu í stjórn. Má þar nefna félög tengd Magnúsi Ármann, sem var hluthafi í FL Group og sat í stjórn félagsins, Örvari Kjærnested, sem var yfir starfsemi FL Group London fyrir hrun, og Bernhard Bogasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs FL Group. Þá á Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, líka stóran hlut.
Auk þess á eiginkona Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group/Stoða og núverandi stjórnarformanns Stoða, og fjölskylda hennar stóran hlut. Með Jóni í stjórninni sitja Sigurjón Pálsson og Örvar Kjærnested. Framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Þorfinnsson.
Gætu orðið stórir í tveimur bönkum
Helstu eignir Stoða eru 4,99 prósent hlutur í Arion banka, 14,86 prósent hlutur í Símanum og 11,66 prósent hlutur í tryggingafélaginu TM.
Stoðir eru stærsti einstaki eigandinn í bæði Símanum og TM, og langstærsti íslenski einkafjárfestirinn í Arion banka. Örvar og Einar Örn sitja báðir í stjórn TM, og Jón Sigurðsson er stjórnarformaður Símans.
Í byrjun viku var greint frá því að Kvika banki og TM hefðu ákveðið að hefja formlegar viðræður um sameiningu bankans við Lykil og að tryggingarfyrirtækið verði dótturfélag bankans. Gert er ráð fyrir TM verði dótturfélag Kviku banka og að Lykill sameinist Kviku banka. Þá er gert ráð fyrir að hluthafar í TM fái sem endurgjald fyrir hlutabréfin sín í TM 55 prósenta hlut í sameinuðu félagi.
Gangi þetta eftir munu Stoðir verða stærsti einstaki eigandi sameinaðs banka með um 6,4 prósent eignarhlut. Fjárfestingafélagið verður þá líka orðið stærsti einkafjárfestirinn í báðum einkareknu bönkum landsins.