Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um íslenskt landshöfuðlén á þingi, í annað sinn. Í frumvarpinu er áfram kveðið á um að íslenska ríkið hafi forkaupsrétt að hlutum í skráningarstofunni Internet á Íslandi (ISNIC), sem gefur út lén með .is endingu.
Ekki þótti ástæða til þess að taka slíkt ákvæði út úr frumvarpinu eða breyta því þrátt fyrir að einn hluthafa ISNIC hafi gert kröfu um það er frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og sagt vafa undirorpið hvort forkaupsréttarákvæðið stæðist stjórnarskrá.
Frumvarpið um íslenskt höfuðlandslén hefur verið í vinnslu hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu allt frá árinu 2005, frá því að skráning og útgáfa léna með .is endingu var einkavædd í upphafi aldarinnar.
Hjá ráðuneytinu hefur verið til skoðunar að setja eignarnámsheimild inn í frumvarpið, en sú ráðstöfun þótti ganga of langt og fara gegn meðalhófi. Hið opinbera á í dag tæplega 24 prósent í félaginu.
Forkaupsrétturinn sem kveðið er á um í frumvarpinu heimilar ríkissjóði að ganga inn í kauptilboð ef þau verða gerð í félagið, hvort sem að þau koma frá innlendum aðilum eða erlendum, en ríkissjóði er hins vegar ekki skylt að nýta þennan rétt.
Ákvæðið er sagt „fyrst og fremst til að tryggja að félagið verði ekki selt út úr íslenskri lögsögu“ en þó er gert ráð fyrir að ríkissjóður gæti einnig beitt forkaupsrétti sínum ef að innlent félag kaupir hlut í ISNIC.
Þetta breytist ekki í endurfluttu frumvarpi Sigurðar Inga þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins kæmu því að í sameiginlegri umsögn sinni um málið í vor að forkaupsréttinn ætti að takmarka við kaup erlendra aðila á hlut í félaginu.
Sjálfseignarstofnanir á Norðurlöndum en arðsamt fyrirtæki á Íslandi
Í greinargerð með frumvarpinu að skráningarstofur á borð við ISNIC séu gjarnan reknar sem sjálfseignarstofnanir en ekki í hagnaðarskyni í löndunum í kringum okkur og er til dæmis bent á Danmörku, Noregi og Svíþjóð í því samhengi.
Hér á Íslandi er þessu öfugt farið. ISNIC hefur skilað eigendum sínum stöðugum arði um árabil, en í fyrra var fjallað um það í Morgunblaðinu að félagið hefði hagnast um 90 milljónir árið 2018 og samtals um yfir 800 milljónir króna frá árinu 2009.
Öryggissjónarmið sögð hafa mikið vægi
Í greinargerð með frumvarpinu er farið yfir það af hverju ríkið telji nauðsynlegt að setja lög um lénamál hér á landi og segir þar að netið sé hluti mikilvægra innviða ríkisins.
„Eignarhlutir og stjórnir einkafyrirtækja geta tekið miklum breytingum á skömmum tíma og nauðsynlegt er að gera ráðstafanir sem tryggja að starfsemin sé með lögheimili hér á landi undir íslenskri lögsögu og að rétthafaskráin sé vistuð hér á landi en ekki úti í heimi, t.d. í svokölluðu skýi. Það er óviðunandi fyrir hagsmuni Íslands að íslensk stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir það að t.d. eignarhald skráningarstofu verði selt erlendum aðilum,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir einnig að mikilvægt sé að íslensk yfirvöld „hafi heimildir til að bregðast við utanaðkomandi ógnum, svo sem vegna hættu á hryðjuverkum eða vegna stríðsástands, sem varða íslensk landshöfuðlén“ og bent er á a Atlantshafsbandalagið hafi skilgreint netöryggi sem fjórðu vídd sameiginlegra varna bandalagsins ásamt vörnum í lofti, á láði og legi.
Einnig segir landshöfuðlén geti haft „talsverð áhrif á ímynd lands og þjóðar“ og því sé nauðsynlegt að stjórnvöld hafi „úrræði til að bregðast við skráningum léna undir landshöfuðléninu sem hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins.“