Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem myndi takmarka stöðutöku fjármálagerninga hjá kerfislega mikilvægum bönkum þannig að eiginfjárþörf vegna gerninganna myndi ekki ná yfir 15 prósentum af eigin fé bankans.
Varnarlínan
Samkvæmt frumvarpinu er takmörkununum ætlað að vera svokölluð varnarlína til að skýla innistæðueigendum stóru bankanna og ríkissjóði fyrir fjárfestingarbankastarfsemi, sem er áhættusamari en önnur starfsemi þeirra.
Varnarlínan felur í sér að beinar og óbeinar stöður bankanna í fjármálagerningum megi ekki krefjast meira eigin fé en því sem nemur 15 prósentum af eiginfjárgrunni þeirra. Búist er við því að áhætta viðskiptavina bankanna minnki með slíkri varnarlínu, en frumvarpið bætir þó við að hún gæti dregið úr stærðarhagkvæmni og þjónustuframboði þeirra.
Ekki er þó víst hvort frumvarpið muni hafa mikil áhrif á starfsemi bankanna, þar sem umrætt hlutfall var langt undir 15 prósenta hámarkinu í fyrra. Í lok árs 2019 var stöðutökuhlutfall bankanna þriggja um 4,35 prósent, og hafði það lækkað úr 4,85 prósentum áramótin á undan.
Starfshópar, skýrslur og nefndir
Frumvarpið er afrakstur rúmlega þriggja ára ferlis sem Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra hóf með skipun starfshóps um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka í mars árið 2017.
Meðal tillagna starfshópsins var að fjárfestingarbankastarfsemi yrði heimiluð innan alhliða banka að skilgreindum mörkum. Þessar tillögur voru svo betur útlistaðar í nefnd sem Bjarni skipaði í janúar 2018, en hún lagði til að eiginfjárþörf fjármálagerninga á meðal þeirra banka sem þykja kerfislega mikilvægir, þ.e. Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, mætti ekki vera umfram 10-15% af eiginfjárgrunni þeirra. Seinna sama ár var tekið undir þessa tillögu í hvítbók um framtíð fjármálakerfisins.
Í kjölfar útgáfu hvítbókarinnar skipaði Bjarni svo enn annan starfshóp til þess að vinna að frumvarpinu, en í honum voru tveir fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, ásamt tveimur fulltrúum frá Fjármálaeftirlitinu og einum fulltrúa frá Samtökum fjármálafyrirtækja.