Hertar sóttvarnaraðgerðir munu taka gildi strax eftir helgi. Þá munu fleiri en tuttugu manns ekki koma saman í sama rými, með nokkrum undantekningum. Einnig mun börum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verða lokað, en sundlaugar verða áfram opnar.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við fréttastofu Vísis rétt eftir ríkisstjórnarfund í ráðherrabústaðnum fyrr í dag. Boðið var til fundar eftir að Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir skilaði tillögum sínum um hertar sóttvarnaraðgerðir til þess að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar í morgun.
Samkvæmt Katrínu munu aðgerðirnar verða formlega kynntar innan næsta sólarhrings, en búist er við að þær taki gildi strax eftir helgi. Hún sagði tillögurnar snúast aðallega að frekari fjöldatakmörkunum, en þar verði almennt miðað við að ekki fleiri en 20 manns megi koma saman.
Hins vegar bætir Katrín við að fleiri undantekningar muni gilda frá þessum takmörkunum en þegar þær voru settar á fyrr í vor, til að mynda verði ákveðnar sérreglur um útfarir. Aðgerðirnar muni einnig snúast að lokun ýmissa staða, líkt og bara, spilasala og líkamsræktarstöðva. Hins vegar megi sundlaugar áfram verða opnar, þó með færri gestum en áður.
Samkvæmt Katrínu er nauðsynlegt að bregðast hart við frekari útbreiðslu veirunnar, en mikill fjöldi nýrra smita auk lágs hlutfalls smita sem greind eru í sóttkví sé mikið áhyggjuefni.
61 nýtt tilfelli af COVID-19 greindist í dag, en í 39 tilfellum var um að ræða fólk sem var utan sóttkvíar við greiningu. Ekki hafa fleiri greinst utan sóttkvíar síðan í fyrstu bylgju faraldursins í vor.
Fréttin hefur verið uppfærð.