Nokkuð ósamræmi er í fréttum um heilsu og líðan Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að hafa verið greindur með COVID-19 fyrir tveimur dögum síðan og lagður inn á sjúkrahús í gærkvöldi. Forsetinn segir sjálfur að honum líði vel og taka læknar hans undir þau orð. Hins vegar segja aðrir heimildarmenn að ástand hans síðasta sólarhringinn hafi verið varhugavert og að hann hafi fengið súrefnisgjöf áður en hann var lagður inn.
Associated Press fjallaði um fréttatilkynningu frá læknum Hvíta hússins um heilsufar forsetans fyrr í dag. Trump greindi frá því sjálfur aðfaranótt föstudags að hann hafi verið greindur með COVID-19, en læknarnir sögðu hann hafa sýnt einkenni veirunnar á fimmtudagseftirmiðdegi. í gærkvöldi var forsetinn svo lagður inn á Walter Reed hersjúkrahúsið.
Hins vegar bættu læknarnir við að Trump væri á batavegi og að honum liði vel núna. Forsetinn væri þó enn með hósta og stíflað nef, en einkenni hans væru vægari en áður. Hann hafi einnig verið hitalaus í sólarhring.
Aðspurður hvort forsetinn hafi fengið súrefnisgjöf sagði Sean Conley, einn læknanna að hann þurfi ekki á henni að halda núna, en forðaðist þó að svara hvort hann hafi fengið súrefnisgjöf eftir að hafa verið greindur með veiruna.
Ónafngreindur heimildarmaður Associated Press sagði þó að Trump hafi fengið súrefni í gær áður en hann var lagður inn á sjúkrahús. Mark Meadows, aðstoðarmaður Trump, sagði einnig að heilsufar hans í gær hafi verið „mjög varhugavert“ og að næstu tveir sólarhringar myndu skera úr um hvort hann yrði lengur á sjúkrahúsinu eða ekki.
Trump er sjálfur nógu hress fyrir Twitter, en hann þakkaði starfsfólki sjúkrahússins fyrir störf sín í færslu á samfélagsmiðlinum fyrr í dag. Enn fremur bætti hann við að honum sé farið að líða vel með þeirra hjálp. Twitter-færsluna má sjá hér að neðan.
Doctors, Nurses and ALL at the GREAT Walter Reed Medical Center, and others from likewise incredible institutions who have joined them, are AMAZING!!!Tremendous progress has been made over the last 6 months in fighting this PLAGUE. With their help, I am feeling well!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 3, 2020
Trump sagði frá greiningunni stuttu eftir að fjölmiðlar komust að því að einn aðstoðarmanna hans, Hope Hicks, hafi greinst með jákvætt sýni fyrir kórónuveirunni.
Samkvæmt frétt Associated Press hefur ríkisstjórn Trump enn ekki gefið upp ýmsar upplýsingar varðandi heilsu hans. Ekki er enn vitað nákvæmlega hver einkenni forsetans eru eða hvaða mælingar hafa verið teknar á honum. Einnig er þar getið að fjölmiðlar upplýstu fyrst um smit Hicks, ekki Hvíta húsið.