Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að hann muni yfirgefa Walter Reed-sjúkrahúsið í Washington í kvöld. Þessu lýsti hann yfir á Twitter. „Líður mjög vel! Ekki vera hrædd við Covid. Ekki láta það stjórna lífi ykkar,“ skrifaði forsetinn.
Hann bætti því við að búið væri að þróa „frábær lyf og þekkingu“ við veirunni og gaf í skyn að það væri Trump-stjórninni að þakka. „Mér líður betur en fyrir 20 árum síðan!“ sagði Trump í tísti sínu.
Læknateymi forsetans á Walter Reed-spítalanum steig fram á blaðamannafundi skömmu eftir að forsetinn sendi þessi skilaboð frá sér. Þar staðfesti Sean Conley, læknir forsetans, að Trump yrði fluttur í Hvíta húsið í kvöld eftir að honum yrði gefinn næsti skammtur af lyfinu remdevisir, sem beitt er gegn COVID-19. Hann er sagður hafa svarað lyfjameðferðinni vel.
Hann mun fá annan skammt af remdevisir á morgun, þriðjudag, og halda áfram að vera í umsjá færustu lækna allan sólarhringinn, að sögn Conley.
Spurður út í ástand forsetans og batahorfur sagði Conley að Trump væri ekki alveg hólpinn, en almennt var á honum að skilja að hlutirnir litu ágætlega út fyrir hönd forsetans, sem hefur verið á spítala vegna COVID-19 síðan á föstudaginn, en greint var frá því að hann væri með sjúkdóminn á fimmtudagskvöld.
Erfitt hefur reynst fyrir fjölmiðla að fá áreiðanlegar upplýsingar um ástand hans yfir helgina og hafa misvísandi upplýsingar komið frá læknateyminu sem annast hann. Þó er vitað að tvívegis hefur lækkandi súrefnismettun í blóði forsetans gefið tilefni til þess að hann fái súrefnisgjöf.
Trump hefur einnig fengið steralyfið dexametasón, sem hefur verið notað til þess að takast á við alvarleg tilfelli sjúkdómsins. Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum, t.d. á vegum Lyfjastofnunar Evrópu, að viðbótarmeðferð með dexametasóni getur minnkað líkurnar á því að þeir COVID-19 sjúklingar sem fá súrefnisgjöf eða þurfa að leggjast í öndunarvél láti lífið.
Conley læknir sagðist ekki geta rætt niðurstöður úr lungnamyndatökum forsetans við fjölmiðla vegna lagalegra takmarkana á því hvað læknum er heimilt að gefa upp um ástand sjúklinga sinna, á blaðamannafundinum í kvöld.
I will be leaving the great Walter Reed Medical Center today at 6:30 P.M. Feeling really good! Don’t be afraid of Covid. Don’t let it dominate your life. We have developed, under the Trump Administration, some really great drugs & knowledge. I feel better than I did 20 years ago!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 5, 2020