Boeing telur að ellefu prósent færri nýjar þotur verði afhentar næsta áratuginn en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Skýringin: COVID-19.
Ellefu prósent hljóma kannski ekki eins og há tala. En hún er það – sérstaklega í ljósi þess að áætlunin nær til allra flugvélaframleiðenda. Gangi spá Boeing eftir munu 2.200 færri stórar flugvélar verða afhentar næstu tíu árin en ef faraldur COVID-19 hefði ekki komið til sögunnar. Í frétt Seattle Times um málið segir að spáin nái yfir bæði Boeing og Airbus, risana á markaðnum, en einnig smærri fyrirtækja og samkeppnisaðila í Kína sem höfðu stór áform á prjónunum.
Þessi mögulega sviðsmynd er hluti af spá sem Boeing gefur út á hverju ári þar sem reynt er að horfa tvo áratugi fram í tímann um mögulega eftirspurn í fluggeiranum.
Að mati Boeing verður höggið harðast næstu þrjú árin og Darren Hulst, yfirmaður hjá fyrirtækinu, sagði á blaðamannafundi í dag að það muni taka farþegaflugið þrjú ár að komast á svipaðar slóðir og það var í fyrra.
Á síðustu tíu árum hefur farþegaflug vaxið hratt – um helmingi hraðar en spár höfðu gert ráð fyrir. En svo kom COVID-19 til sögunnar og flugið er meðal þeirra geira efnahagslífsins sem hafa orðið hvað verst úti.
Í nýjustu upplýsingum Alþjóðlegu flugmálastofnunarinnar IATA kemur fram að farþegaflug hafi dregist saman um 75 prósent í heiminum í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra.