Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að hún muni berjast fyrir því að fólk sem hingað sækir fái sanngjarna, réttláta og mannúðlega málsmeðferð. Hún vonast til þess að aðrir þingmenn, og sérstaklega þeir sem hafa tjáð sig um orð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um þá hugmynd að vista fólk á afmörkuðu svæði eftir að ákveðið hefur verið að vísa því af landi brott, muni standa með sér í því. Þingmaðurinn segir að hugmyndin sé fráleit og að hún komi ekki til greina.
Þetta kom fram í máli Bjarkeyjar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún sagði jafnframt að það sem um ræðir væri að sjálfsögðu ekkert annað en flóttamannabúðir eða jafnvel bara fangelsi og að ekki kæmi til greina að setja slíkt á laggirnar af hálfu þingflokks Vinstri grænna.
„Eins og ráðherrann sagði þyrfti lagabreytingu til að slíkt yrði að raunveruleika og ég leyfi mér að fullyrða að slíkt frumvarp kæmist ekki í gegnum minn þingflokk, enda er slíkt mál hvergi að finna á þingmálaskrá ráðherrans og ekkert sem hún sagði gefur til kynna að það eigi að hrinda slíku í framkvæmd. Þótt þingmálaskrár séu oft uppfærðar með tilliti til stöðunnar í samfélaginu myndi afstaða Vinstri grænna ekki breytast ef slíkt mál birtist þar,“ sagði hún.
Djúp vonbrigði
Fjölmargir þingmenn gagnrýndu orð dómsmálaráðherra á samfélagsmiðlum í gær. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, sagði meðal annars að hugmyndin væri arfaslæm.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gerði athugasemdir við málflutning dómsmálaráðherra á Facebook í gær. „Þegar forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að endurskoða ætti hagsmunamat flóttabarna hugsaði ég, hvað þýðir það í alvöru Katrín? Nú er dómsmálaráðherra búin að gefa okkur smjörþefinn af því sem koma skal. Geymum flóttabörn í fangabúðum!“ skrifaði hún á Facebook.
„En við skulum ekki kalla það fangabúðir, VG gæti fundist það aðeins of óþægilegt – köllum það frekar „afmörkuð brottvísunarsvæði“ – miklu meira pent.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka og fyrrverandi VG-liði, sagði á Twitter í gær að það væru djúp vonbrigðin verið væri að „íhuga þennan ómanneskjulega möguleika að safna saman á einn stað fólki sem ákveðið hefur verið að vísa burt“. Hún spurði enn fremur á hvaða vegferð ríkisstjórn – leidd af VG – væri þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda.