Sóttvarnarlæknir mun leggja til hertra aðgerða á höfuðborgarsvæðinu gegn útbreiðslu kórónuveirunnar, auk þess sem ríkislögreglustjóri mun senda frá sér tilmæli um hertar einstaklingsbundnar sóttvarnaraðgerðir. Tilmælin snúa að því að takmarka ýmsa hópamyndun auk þess sem hvatt er til þess að öllum viðburðum verði frestað næstu tvær vikur.
Þetta kom fyrst fram í viðtali hjá RÚV við Víði Reynisson, yfirlögregluþjón almannavarnardeildar, fyrr í dag. Í því segir Víðir ekki til um hve mikið af þeim tilmælum muni rata inn í minnisblað sóttvarnarlæknis sem reglur.
Ríkislögreglustjóri mælist til þess að íbúar höfuðborgarsvæðisins:
- Veri eins mikið heimavið og hægt er
- Veri ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsynlegt er
- Takmarki fjölda í búðum, þannig að helst einn úr fjölskyldu fari
- Takmarki enn frekar heimsóknir til viðkvæmra hópa
- Fresti öllum viðburðum næstu tvær vikurnar
- Geri hlé á starfsemi hvers kyns íþrótta-, tómstunda- og útivistarhópa
- Sleppi því að fara í sund nema ef þeir þurfa heilsu sinnar vegna
- Tryggi að allir staðir og verslanir sem opnir eru á höfuðborgarsvæðinu tryggi fjöldatakmarkanir eins vel og unnt er sem og handspritt fyrir alla.
Víðir segir það einnig vera til athugunar að gera hlé á íþróttastarfi á höfuðborgarsvæðinu næstu tvær vikur.
Farið verður yfir tilmælin nánar á upplýsingafundi Almannavarna klukkan þrjú í dag.