„Það hvernig við tökum á móti fólki og það hvernig við búum í haginn fyrir þá sem ýmist eru að bíða eftir afgreiðslu eða hafa fengið niðurstöðu er hvort tveggja meðal þeirra brýnu verkefna sem við þurfum að skoða nánar og sem verður að vera hægt að ræða af yfirvegun.“
Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Facebook í dag en orð hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær vöktu mikla athygli.
Var hún spurð út í verklag við brottvísun einstaklinga sem dveljast ólöglega í landinu. „Ég sagði að slíkt verklag væri alltaf í skoðun. Þá vísaði ég til þeirrar framkvæmdar sem nær öll Evrópuríki, þ.á m. Norðurlöndin, grípa til þegar búið er að taka ákvörðun um brottvísun. Ég hafði þó ekki orð á því að slíkt verklag sem í umræðunni var kallað „brottvísunarbúðir“ væri í vinnslu hérlendis,“ skrifar hún.
„Allt í samræmi“ sem hún hefur áður sagt
Áslaug Arna segir að staðreyndin sé á hinn bóginn sú að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins skuli vera til staðar slíkt búsetuúrræði þegar öll önnur vægari úrræði eru tæmd. „Við höfum ekki innleitt þá tilskipun að fullu þrátt fyrir skuldbindingar þess eðlis í Schengen samstarfinu.“
Hún segir enn fremur að öll viljum við „vanda okkur í þessum viðkvæmu málum, þá sérstaklega þegar málin snúa að börnum. Þar þarf hvort í senn að móta heildarstefnu sem hægt er að koma sér saman um og eins að finna lausnir á praktískum atriðum. Allt er þetta í samræmi við það sem ég hef áður sagt.“
Í gær var ég í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi spurð um verklag við brottvísun einstaklinga sem dveljast ólöglega í...
Posted by Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir on Tuesday, October 6, 2020
Kjarninn fjallaði um málið í gær en Áslaug Arna sagði í svari sínu á Alþingi að skoða þyrfti ákveðin úrræði. „Það hafa verið umræður í Evrópulöndum um ákveðin úrræði, að hafa fólk á ákveðnu svæði, sem við höfum til dæmis ekki framfylgt með breytingum á okkar lögum. Það er víða í löndunum í kringum okkur þar sem þessu er háttað þannig að aðilar eru á ákveðnu svæði eftir að þeir fá til dæmis neitun frá báðum stjórnsýslustigum til að það sé hægt að framkvæma þetta með auðveldari hætti. Það gerist þá ekki að aðilar séu týndir í samfélaginu og ekki sé hægt að framfylgja ákvörðunum. Það eru lagabreytingar sem þyrfti að ráðast í en annars erum við að skoða verklagið í heild sinni í þessu eins og öðru,“ sagði hún.
Þingmaður VG sagði hugmyndina fráleita
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag að hún myndi berjast fyrir því að fólk sem hingað sækir fengi sanngjarna, réttláta og mannúðlega málsmeðferð. Hún vonast til þess að aðrir þingmenn, og sérstaklega þeir sem hafa tjáð sig um orð dómsmálaráðherra, muni standa með sér í því. Þingmaðurinn sagði að hugmyndin væri fráleit og ekki koma til greina.
Hún sagði jafnframt að það sem um ræðir væri að sjálfsögðu ekkert annað en flóttamannabúðir eða jafnvel bara fangelsi og að ekki kæmi til greina að setja slíkt á laggirnar af hálfu þingflokks Vinstri grænna.
Spjótin standa á VG
Fjölmargir þingmenn gagnrýndu orð dómsmálaráðherra á samfélagsmiðlum í gær. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, sagði meðal annars að hugmyndin væri arfaslæm.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gerði athugasemdir við málflutning dómsmálaráðherra á Facebook í gær. „Þegar forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að endurskoða ætti hagsmunamat flóttabarna hugsaði ég, hvað þýðir það í alvöru Katrín? Nú er dómsmálaráðherra búin að gefa okkur smjörþefinn af því sem koma skal. Geymum flóttabörn í fangabúðum!“ skrifaði hún á Facebook.
„En við skulum ekki kalla það fangabúðir, VG gæti fundist það aðeins of óþægilegt – köllum það frekar „afmörkuð brottvísunarsvæði“ – miklu meira pent.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka og fyrrverandi VG-liði, sagði á Twitter í gær að það væru djúp vonbrigðin verið væri að „íhuga þennan ómanneskjulega möguleika að safna saman á einn stað fólki sem ákveðið hefur verið að vísa burt“. Hún spurði enn fremur á hvaða vegferð ríkisstjórn – leidd af VG – væri þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda.