Vikulegur fjöldi nýrra COVID-19 smita í Svíþjóð er nú á svipuðum slóðum og hann var í fyrstu bylgju faraldursins í byrjun apríl þar í landi. Hröð aukning smita í Stokkhólmi, Uppsölum og á Skáni vekja ugg, en landlæknir bendir á háskólanema og hokkíspilara sem hugsanlega smitbera.
Útbreitt ónæmi hindraði ekki nýja bylgju
Fyrir mánuði síðan greindi Kjarninn frá fækkun smita í Svíþjóð, á meðan þeim fór fjölgandi í Danmörku. Anders Tegnell sóttvarnarlæknir Svíþjóðar mat það svo að útbreitt ónæmi fyrir veirunni þar í landi skýra mismuninn í fjölgun smita. Enn fremur sagðist hann ekki óttast aðra stóra bylgju veirunnar í landinu, þótt hann taldi líklegt að staðbundin hópsmit gætu komið upp.
Þrátt fyrir yfirlýsingar Tegnell virðist svo vera sem að önnur bylgja sé nú hafin í Svíþjóð, en nýjum smitum hefur fjölgað ört þar í landi á síðustu dögum samkvæmt tölum frá landlæknisembætti landsins.
Smitin eru þó ekki enn orðin jafnmörg og þau voru á hápunkti faraldursins í Svíþjóð júní síðastliðnum, en þá greindust rúmlega sjö þúsund smit á viku.
Aukningin er hröð í höfuðborg landsins, Stokkhólmi, þar sem vikuleg tilfelli eru nú fjórum sinnum fleiri en þau voru í byrjun septembermánaðar. Einnig hefur smitum fjölgað hratt á Skáni í suðurhluta landsins, en þar hefur fjöldi nýrra smita orðið jafnhár og hann var á hápunkti faraldursins fyrr í ár.
Í Uppsölum má líka sjá öra fjölgun nýrra tilfella, en ákveðið var í dag að fresta öllum aðgerðum í háskólasjúkrahúsinu í borginni sem ekki eru nauðsynlegar. Samkvæmt Johan Nöjd, smitsjúkdómalækni sjúkrahússins hefur fjöldi innlagna þeirra sem eru sýktir af kórónuveirunni aukist hratt, en 20 manns liggja þar inni þessa stundina.
Á blaðamannafundi í gær sagði Tegnell að Stokkhólmur, Skánn, Uppsalir og Uppland standi út úr í fjölda smita, en fjölgunin bendi til þess að smitin séu tiltölulega útbreidd í samfélaginu og ekki staðbundin lengur.
Hokkílið og stúdentar
Landlæknisembætti Svíþjóðar segist hafa skoðað hvað gæti legið að baki nýlegri aukningu smita og segir að vísbendingar séu frá Svíþjóð, Noregi og Finnlandi um að ýmis íþróttastarfsemi gæti átt í sök.
Embættið nefnir sérstaklega hokkílið, þar sem hópsýkingar hafa myndast. Tegnell bætir þó við að ekki sé talið að neinn hafi smitast á skautasvellunum sjálfum, líklegra er að smit hafi borist á milli manna innan sömu liðanna. „Við erum í samræðum við Íþróttasamband Svíþjóðar um mögulegar ástæður að baki smitsemi hokkísins,“ sagði sóttvarnarlæknirinn svo.
Einnig benti Tegnell á að einkasamkvæmi og veislur meðal námsmanna hafi leitt til frekari útbreiðslu smitanna í Uppsölum á blaðamannafundi í gær. Nöjd sagðist þá einnig vera í samræðum við Tegnell um mögulega takmörkun á opnunartíma veitinga- og skemmtistaða í borginni.