Forsetakeppræðunefnd Bandaríkjanna tilkynnti í dag að næstu kappræður forsetaframbjóðendanna tveggja í næstu viku verða haldnar á sitthvorum staðnum. Þetta kemur fram í frétt vefmiðilsins Axios um málið.
Samkvæmt fréttinni myndu áhorfendur kappræðnanna og stjórnandi þeirra, Steve Scully, vera á sama stað í fundarsal í Miami.
Ýmsar sóttvarnarráðstafanir hafa verið gerðar frá síðustu kappræðum forsetaframbjóðendanna, en Donald Trump Bandaríkjaforseti greindist með COVID-19 stuttu eftir þær. Varaforsetaframbjóðendur Bandaríkjanna, sitjandi varaforsetinn Mike Pence og öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris, mættust í kappræðum í gærkvöldi, en þar voru fjórir metrar og veggur af plexigleri á milli frambjóðendanna.
Axios bætir þó við að óvíst sé hvort kosningateymi Trump og Pence muni fallast á nýjar reglur nefndarinnar, en það gerði lítið úr ráðstöfununum í kappræðunum í gær. “Ef Harris vill hafa virkisvegg í kringum hana, verði henni af því,” sagði Katie Miller, talsmaður varaforsetans.
Uppfært kl. 13:33
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að taka þátt í næstu kappræðum, samkvæmt nýrri frétt Politico. Í viðtali við Fox Business sagðist forsetinn ekki ætla að eyða tímanum sínum í sýndarkappræðum. „Þú situr fyrir framan tölvuna og rökræðir. Það er fáránlegt, og þeir geta klippt á þig hvenær sem þú vilt“, sagði forsetinn.