Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segjast finna fyrir samstöðu hjá ríkisstjórninni á þær aðgerðir sem gripið hefur verið til síðustu daga. „Ríkisstjórnin stendur þétt við bakið á okkur,“ sagði Víðir á upplýsingafundi dagsins en í frétt Fréttablaðsins í dag kom fram að nokkrir þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins væru með efasemdir á aðgerðirnar.
94 greindust með veiruna innanlands í gær og er þetta þriðji dagurinn í röð sem álíka mörg smit hafa greinst. 23 liggja á Landspítalanum með COVID-19 og þrír á gjörgæslu og í öndunarvél. Langflestir þeirra sem greindust í gær eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
Rúmlega þúsund manns hafa greinst með veiruna frá því að þriðja bylgjan hófst um miðjan september. 850 manns eru nú í einangrun. Sóttvarnalæknir telur að á næstu dögum eigi svipaður fjöldi eftir að greinast daglega og að innlögnum á sjúkrahús eigi eftir að fjölga að sama skapi.
„Það er hlutverk stjórnmálamanna að spyrja ágengra spurninga,“ sagði Víðir, spurður út í frétt Fréttablaðsins í morgun. Hann sagði almannavarnir vilja fá rýni á það sem verið væri að gera. „Það að einhver hafi skoðun sem einhverjum örðum finnst skrítin – það er bara þannig. Við fögnum allri umræðu,“ sagði Víðir og ítrekaði að full samstaða væri í ríkisstjórninni.
Eins og landslið
Þórólfur sagði það mjög mikilvægt að samstaða væri hjá stjórnvöldum og að ráðherrar og þingmenn yrðu að sýna samstöðu eins og verið væri að biðja almenning að gera. „Ég lít þannig á að fólk geti verið ósammála og komið fram með sínar skoðanir en þegar við höfum ákveðið að gera eitthvað þá standi menn saman um það. Að halda áfram að karpa um það út í hið óendanlega gerir ekkert annað en að rjúfa samstöðuna.“
Líkti hann þessu við samstöðuna og stuðninginn við landslið í fótbolta. Fólk hefði skiptar skoðanir en þegar landsliðið mætti á völlinn og leikurinn byrjar hvetji allir það áfram. „Eini sanni sannleikurinn um hvernig á að gera þetta er ekki til,“ sagði hann um mismunandi skoðanir á aðgerðum í faraldrinum.
Þórólfur vitnaði í umræðu um misræmi í hans tillögum um íþróttaiðkun í minnisblaði og svo ákvörðun ráðherra sem sett var fram í reglugerð. Honum finnst ástæðulaust að dvelja við slíkt því nú væri mikilvægast að allir legðust á eitt til að minnka líkur á smiti. „Veiran les ekki minnisblöð sóttvarnalæknis og ekki reglugerðir ráðuneytisins,“ sagði hann.
Hvatt væri áfram til þess að ónauðsynleg hópamyndun, sem krefst nálægðar, verði frestað.
Grunnprinsippin eru skýr
Veiran smitast með dropasmiti, snertismiti og úðasmiti, rifjaði hann upp. Til að minnka líkur á dropasmiti þyrfti að forðast nánd við aðra og viðhafa 1-2 metra nándarreglu. Einnig gætu andlitsgrímur hjálpað. Hvað snertismit varðar sé mikilvægt að þvo hendur og spritta og hreinsa sameiginlega snertifleti. Til að forðast úðasmit ætti fólk að forðast illa loftræsta staði og nota grímur.
„Þetta eru grunn prinsippin sem þarf að hafa í huga,“ sagði Þórólfur. Dæmi væru um að einstaklingar væru að leita leiða til að koma sér hjá því að taka þátt í aðgerðum, flytja til dæmis líkamsrækt út úr húsum og undir beran himin. Aðrir hafi skilgreint starfsemi sína upp á nýtt svo að reglugerðir nái ekki yfir þá. „Þetta finnst mér leitt að heyra og þetta mun ekki hjálpa okkur í baráttunni gegn veirunni.“
Hann lagði áherslu á að flestir væru að fara eftir leiðbeiningum en minnti á að það væri nóg að fáir gerðu það ekki, „þá getum við sett af stað faraldur“.