Einungis verður heimilt að selja flugelda dagana 30. og 31. desember og 6. janúar, samkvæmt drögum að reglugerðarbreytingu frá dómsmálaráðuneytinu sem lögð hafa verið fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Eins og reglurnar eru í dag má bæði selja og sprengja flugelda frá 28. desember til 6. janúar, en þó má ekki sprengja þá á milli kl. 22 á kvöldin og 10 á morgnana.
Samkvæmt drögum ráðuneytisins að nýjum reglum verður einungis heimilt að skjóta upp flugeldum frá kl. 16 á gamlárdag og til kl. 2 á nýársnótt og á nýársdag og þrettándanum frá kl. 16-22. Alls yrði leyfilegt skot-tímabil því 22 klukkustunda langt.
Leyfi til að fresta og sprengja seinna vegna aðstæðna
Sveitarfélög myndu þó samkvæmt reglugerðardrögunum hafa leyfi til þess að hliðra til gamlárskvölds-sprengingum ef aðstæður um áramót væru slæmar og heimila almenna skoteldanotkun á einhverjum öðrum degi í upphafi janúarmánaðar í staðinn.
Þetta mætti bæði gera ef vindur væri of lítill (undir 2 m/s) eða of mikill (yfir 10 m/s), eða ef mengunarspá sýndi fram á að flugeldamengun yrði svo mikil á gamlárskvöld að það gæti reynst hættulegt heilsu manna.
Sveitarfélög myndu samkvæmt þessum drögum einnig hafa heimild til þess að færa þrettándafögnuð fram á sunnudag í fyrstu viku janúarmánaðar og heimila notkun flugelda þann dag, í stað þrettánda dags jóla.
Árviss umræða hefur verið um flugeldamengun á áramótum undanfarin ár og benti Umhverfisstofnun á það fyrir síðustu áramót að flugeldamengun væri raunverulegt vandamál hér á landi og hvatti landsmenn til hófsemi í sprengingum.
Starfshópur dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra um hvernig draga mætti úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna flugeldamengun skilaði af sér tillögum í upphafi þessa árs.
Helsta niðurstaða starfshópsins var að nauðsynlegt væri að takmarka sem mest þá mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá fólki. Einnig þyrfti að hafa í huga óæskileg áhrif flugelda á atferli og líðan margra dýra. Starfshópurinn benti einnig á að á huga þyrfti að loftmengun hér á landi í víðu samhengi og að draga þyrfti úr allri mengun þar sem það væri mögulegt, til bættra lífsgæða fyrir allan almenning.
Hægt er að segja skoðun sína á að reglugerðardrögunum í samráðsgátt stjórnvalda til 28. október.