Undanfarið hafa fleiri börn og unglingar en áður hringt í Hjálparsímann 1717 og lýst áhyggjum sínum og vanlíðan. Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum hefur símtölum frá fólki sem finnur fyrir kvíða einnig fjölgað.
Pieta-samtökin, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, sinna yfir 300 viðtölum á viku við fólk sem glímir við sjálfsvígshugsanir. Hringt er í Hjálparsímann 1717, sem Rauði krossinn rekur, og Pieta-símann á öllum tímum sólarhringsins.
Óvissan er stór fylgifiskur heimsfaraldursins sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og ýmsar breytingar hafa orðið á daglegum venjum og virkni fólks. Það þýðir til dæmis að tækifæri til að sinna því sem almennt skapar vellíðan, eins og að fara í ræktina og sund eða að hitta ástvini, eru takmarkaðri en ella. Allt getur þetta haft áhrif á líðan og valdið áhyggjum. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um að svara þeim símtölum sem berast í 1717 eða skilaboðum í netspjalli og „ekkert vandamál er of stórt eða lítið,“ segir á heimasíðu Hjálparsímans. Þangað er hægt að hringja í trúnaði og ástæður þess að fólk leitar sér þar hjálpar eru margar og mismunandi, svo sem einmanaleiki, þunglyndi, kvíði, sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaði.
Á forsíðu blaðs Geðhjálpar, sem kemur út í dag, er birt tala: 39. Talan stendur fyrir þá íbúa Íslands sem féllu fyrir eigin hendi á árinu 2019. „Við höfum í gegnum árin veigrað okkur við að ræða þessa tölu, þennan mælikvarða á geðheilsu okkar, opinberlega,“ skrifa Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, og Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Pieta, í aðsendri grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Ástæðan fyrir því að þau ákveða að gera það nú er tvíþætt. „Annars vegar viljum við ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem aðstandendur verða fyrir og hins vegar viljum við ræða þá ástæðu sem býr að baki og orsakaþætti geðheilbrigðis. [...] Nú þegar nær níu mánuðir eru liðnir frá því að Covid-19 fór að hafa áhrif á hugsanir okkar og hegðun er ljóst að áhrifin á orsakaþætti geðheilsu verða mikil.“
Héðinn og Kristín segja að allir þurfi að laga sig að breyttum veruleika og fyrir suma sé sú aðlögun umtalsverð. Rútínan fer úr skorðum, fjárhagur verður ótryggari, óvissa og heilsuótti eru meðal þátta sem geta haft áhrif á geðheilsu. „Líðan okkar, geðheilsan, er því undir, nú sem aldrei fyrr, og líklegt er að félags- og efnahagslegar afleiðingar Covid-19 á samfélagið muni fylgja okkur í nokkur ár.“ Með öðrum orðum, skrifa þau, „allar líkur eru á að heilt á litið muni okkur, sem þjóð, líða verr en okkur hefur liðið síðastliðin ár“.
Leggja þau það til að samfélagið bregðist við þeirri áskorun með því að einbeita sér að orsakaþáttum geðheilsu. Benda þau á að fé til almannaþjónustu ríkisins og sveitarfélaga gæti dregist saman næstu misseri á sama tíma og þörfin fyrir þjónustuna hefur aukist. „Við þurfum nefnilega ekki að vera veik til að líða skelfilega illa. Orð eins og biðlistar, úrræði við hæfi, meðferð, greining, geðsjúkdómur, sjálfsvíg, vanlíðan og sálrænn sársauki eru orð sem viðhalda orðræðu þeirra afleiðinga sem við þurfum ávallt að búa við en það verður að auka áhersluna á orsakir geðheilsu okkar allra, óháð því hvernig okkur líður.“
Á vefsíðunni www.39.is er hægt að skrifa undir áskorun um að setja geðheilsuna í forgang í samfélaginu.
Eðlilegt að hafa áhyggjur
Alma Möller landlæknir hefur frá upphafi faraldursins ítrekað bent á mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér og öðrum og meðal annars bent á efni á covid.is undir flipanum Líðan okkar.
Í ljósi mikillar fréttaumfjöllunar um faraldurinn sem nú dynur á öllum er „eðlilegt að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif ástandið muni hafa á okkur og ástvini okkar,“ segir í bæklingnum Að takast á við áhyggjur og kvíða í heimsfaraldri sem birtur er á vefsíðunni Covid.is. „Það er eðlilegt að eiga erfitt á tímum sem þessum, svo það er mikilvægt að sýna sjálfum sér og öðrum aðgát og samúð.“
Allir hafa einhverjar áhyggjur, segir þar ennfremur, og það að hugsa fram í tímann getur hjálpað okkur að skipuleggja hluti og bregðast við aðstæðum. Erfitt getur verið fyrir fólk að meta hvenær áhyggjur eru orðnar óhóflegar en þær verða sjálfstætt vandamál þegar þær koma í veg fyrir að fólk geti lifað því lífi sem það vill lifa eða ef þær valda þreytu og vanlíðan.
Þegar við finnum fyrir áhyggjum getur farið af stað eins konar keðja af hugsunum og hugarmyndum sem oft á tíðum stigmagnast í styrk og svartsýni og beinist stundum að ólíklegustu hlutum. „Á tímum sem þessum er eðlilegt að við stöndum okkur að því að hugsa um verstu mögulegu útkomu. Sumir upplifa algert stjórnleysi gagnvart áhyggjum sínum og finnst eins og þær öðlist sjálfstætt líf,“ segir á Covid.is.
Þar er að finna gagnlegt fræðsluefni og æfingar til að viðhalda vellíðan og höndla áhyggjur m.a. eftirfarandi:
Jafnvægi í daglegu lífi
Hvort sem fólk vinnur að heiman, er í sóttkví eða einangrun getur verið hjálplegt að koma sér upp skipulagi sem felur í sér jafnvægi á milli athafna sem: Veita fólki þá upplifun að það hafi áorkað einhverju; gert gagn eða gert eitthvað mikilvægt, fela í sér tengsl og nánd milli fólks og framkvæmdar eru ánægjunnar vegna.
Eðli vandans
Snúast áhyggjurnar um raunveruleg vandamál eða möguleg vandamál? Ef við erum með áhyggjur af mörgum mögulegum vandamálum er mikilvægt að við minnum okkur á að hugurinn er upptekinn af vandamálum sem við höfum ekki tök á að leysa núna. Í framhaldinu er hjálplegt að finna leiðir til að sleppa áhyggjunum og einbeita sér að öðru.
Æfingar í að fresta áhyggjum
Áhyggjur geta verið ágengar og valdið því að fólki finnist nauðsynlegt að bregðast strax við. Með því að æfa sig í að fresta áhyggjum af mögulegum vandamálum fær fólk gjarnan annað sjónarhorn og upplifun af áhyggjum sínum. Í framkvæmd snýst þetta um að taka daglega frá tíma (t.d. 30 mínútur seinnipart dags) til þess að hugsa um áhyggjurnar og jafnframt að sleppa og fresta áhyggjum á öðrum tímum sólarhringsins.
Sjálfstal sem einkennist af samkennd
Áhyggjur beinast gjarnan að fólki sem okkur þykir vænt um. Eitt af helstu verkfærum hugrænnar atferlismeðferðar er að skrifa niður hugsanir sem eru neikvæðar, valda kvíða eða öðru uppnámi og að finna svör við þeim.
Núvitund
Að læra núvitund og stunda slíkar æfingar getur hjálpað fólki að sleppa áhyggjum og að draga athyglina að líðandi stund. Full athygli að önduninni eða umhverfishljóðum getur verið hjálplegt „akkeri“ til þess að beina athyglinni að núinu og að sleppa áhyggjum.