Níu þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum og tveir þingmenn utan flokka hafa lagt fram frumvarp um að lækka kosningaaldur niður í 16 ára. Verið frumvarpið að lögum munu allir landsmenn sem náð hafa 16 ára aldri geta kosið hérlendis. Fyrstu kosningarnar sem þetta fyrirkomulag myndi gilda yrðu í sveitarstjórnarkosningunum 2022. Fyrstu forsetakosningarnar sem 16 ára gamlir einstaklingar gætu kosið í yrðu 2024 og fyrstu þingkosningarnar að óbreyttu árið 2025.
Fyrsti flutningsmaður málsins er Andrés Ingi Jónsson, sem starfar utan flokka eftir að hafa yfirgefið Vinstri græn fyrir tæpu ári síðan. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem fór sömu leið og Andrés fyrr á þessu ári, er einnig á meðal flutningsmanna. Auk þeirra eru þingmenn frá Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn á frumvarpinu.
Málþóf kom í veg fyrir atkvæðagreiðslu
Frumvörp um að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ár hafa áður verið lögð fram. Í mars 2018, skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar það árið, var öruggur meirihluti fyrir því að samþykkja málið, samkvæmt viðmælendum Kjarnans innan stjórnmálaflokka á þeim tíma.
lögðust hins vegar þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins í málþóf til að tefja fyrir atkvæðagreiðslu um frumvarpið.
Kannanir sýndu að þeir flokkar sem nutu mest stuðnings hjá ungu fólki voru mun meira fylgjandi því að frumvarpið yrði samþykkt í mars 2018 og að breytingin myndi taka gildi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fóru fram í lok maí sama ár.
Í síðustu skoðanakönnuninni sem Gallup gerði um fylgi stjórnmálaflokka fyrir síðustu Alþingiskosningar, og birtist 27. október 2017, kom til að mynda fram að Vinstri græn nutu stuðnings 25 prósent kjósenda sem voru undir 30 ára. Stuðningur við flokkinn var langmestur í yngsta aldurshópnum. Píratar nutu stuðnings 15 prósent kjósenda í þeim aldurshópi. Til samanburðar ætluðu 3-6 prósent þeirra sem voru eldri en 50 ára að kjósa Pírata. Viðreisn naut stuðnings 11 prósents kjósenda undir þrítugu en einungis fjögur prósent kjósenda sem voru yfir 60 ára ætluðu að kjósa flokkinn.
Eini flokkurinn sem var í heild sinni fylgjandi breytingunni á kosningaaldrinum sem naut meira fylgis hjá eldri kjósendum en yngri var Samfylkingin. Það er þó þannig að 12 prósent kjósenda undir þrítugu ætluðu að kjósa þann flokk sem er meira fylgi en hann naut hjá fólki á fertugsaldri.
Flokkar sem sækja stuðning til eldri kjósenda á móti
Flokkarnir sem voru mest á móti breytingunni, eða að minnsta kosti mótfallnir því að hún myndi taka gildi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, áttu það allir sameiginlegt að njóta umtalsverðs meira fylgis hjá eldri kjósendum en þeim sem yngri eru.
Munurinn var sýnilegastur hjá Sjálfstæðisflokki. Í áðurnefndri könnun Gallup kom fram að 18 prósent kjósenda undir þrítugu ætluðu að kjósa flokkinn í síðustu kosningum, sem er langt undir kjörfylgi hans. Að sama skapi naut hann stuðnings 28-30 prósent þeirra sem voru eldri en 40 ára. Miðflokkurinn naut stuðnings sjö prósents kjósenda undir þrítugu og Framsóknarflokkurinn naut stuðnings átta prósent ungra kjósenda.
Í báðum tilvikum var það fylgi töluvert undir kjörfylgi.
Í tilviki Flokks fólksins mældist stuðningur við hann hjá fólki yngra en 30 ára einungis eitt prósent í könnun Gallup.