Jarðskjálftinn sem varð klukkan 13:43 í dag mældist af stærðinni 5,6 og varð í Núpshlíðarhálsi, um fimm kílómetra vestur af Seltúni við vestanvert Kleifarvatn. Samkvæmt tilkynningu frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra fylgdu um 50 eftirskjálftar í kjölfarið og hefur þeim farið fjölgandi.
Engar tilkynningar hafa borist um meiðsli á fólki eða tjón á mannvirkjum en skjálftinn fannst þó víða á landinu. Lögreglu hafa borist tilkynningar um að myndir hafi fallið af veggjum og að smáhlutir hafi dottið úr hillum.
Í tilkynningunni segir að almannavarnardeildin muni fylgjast vel með stöðu mála í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Suðurlandi auk Veðurstofunnar. Lögreglumenn munu fara um svæðið, meðal annars í Krýsuvík, til að kanna áhrif skjálftans.
Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi á Reykjanesi vegna landriss á svæðinu í námunda við fjallið Þorbjörn síðan 26. janúar 2020. Það, og aukin jarðskjálftavirkni, hóf að mælast 21. janúar.
Reykjanesskaginn, þar sem skjálftinn varð, er yngsti hluti Íslands. Hann er mjög eldbrunninn og dregur nafn sitt af allmiklu gufu- og leirhverasvæði, eins og segir í ítarlegri grein Magnúsar Á. Sigurgeirssonar jarðfræðings í Náttúrufræðingnum frá árinu 1995.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum. Gosvirkni á Reykjanesi-Svartsengi einkennist af goslotum eða eldum sem geta varað í áratugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.